Hamborgarafabrikkan opnar á Akureyri í dag.

Í dag opnar annar staður Hamborgarafabrikkunnar og það í höfuðstað norðursins. Í ljósi þess kviknuðu nokkrar spurningar og Akureyri.net fór á staðinn og náði að trufla Jóa, einn af eigendum staðarins í nokkur augnablik, þar sem það var nóg að gera hjá þeim fræknu.  Aðspurður hvenær hugmyndin kviknaði að opnun Fabrikku á Akureyri sagði Jói að þeim hefði verið boðið af forsvarsmönnum Hótel KEA að skoða aðstöðuna síðasta haust. Að sögn Jóa var það ekki ætlunin að opna aðra Hamborgarafabrikku en þegar þeir sáu gömlu Teríuna féllu þeir fyrir staðnum. 

Tveimur mánuðum síðar var hafist handa við að skipulagningu og hönnun staðarins. 35 starfsmenn munu starfa á Fabrikkunni á Akureyri og eru það allt norðlendingar, fyrir utan einn Skagfirðing sem fékk að vera með. Starfsfólkið á Fabrikkunni á Akureyri hefur fengið góða þjálfun og hafa sumir starfsmenn farið í heimsókn á Fabrikkuna í Reykjavík.

Þegar Jói var spurður um sinn uppáhaldshamborgara nefndi hann Forsetann sem inniheldur Dijon sinnep, Parmaskinku, brie-ost og hvítlauksostasósu. Svo heldur Jói mikið uppá karamellumjólkuhristing og kaffi.

Sami matseðill mun gilda fyrir Reykjavík og Akureyri en þó er einn réttur sem mun bara fást fyrir norðan. Það er hið sögufræga Teríusnitsel sem er djúpsteikt lambasnitsel, borið fram með steiktum kartöflum, rauðkáli, grænum baunum, rabarabarasultu og bræddu smjöri.

Ákveðnir munir koma til með að einkenna staðinn svo sem kýrin Rauðhumla, verk eftir Tolla Mortens. Hún tekur á móti fólki og blessar það sem borið er á borð. Djásn staðarins er svo risavaxin mynd af Ingimar Eydal og Skódanum hans úr einkasafni fjölskyldu Ingimars. Hún hangir við stærsta borðið á staðnum en það tekur 15 manns og hefur fengið nafnið Skódinn. Styttan af Rúnari Júl, Herra Rokk, fluttist nýverið norður yfir heiðar og mun eiga aðsetur á Fabrikkunni á Akureyri í framtíðinni. Og svo er Íslendingaklukkan að sjálfsögðu á sínum stað líkt og í Reykjavík.

Þegar ættartré þeirra félaga var rætt kom í ljós að Simmi, einn af stofnendum Fabrikkunnar er einn fjórði Hörgdælingur og á ættir að rekja á Hallkelsstaði í Hörgárdal. Þessi 25% hafa verið mikið í umræðunni undanfarið segir Jói og hlær, en hann er sjálfur ættaður úr Breiðafjarðareyjum í aðra röndina.

Myndir og umfjöllun: Baldvin Þeyr Pétursson: