FÖGNUM VETRI

Fyrsta degi vetrar verður fagnað á Minjasafninu á Akureyri laugardaginn 27. október kl 14-16. Stúlknakór Akureyrarkirkju syngur veturinn inn og börnin gæða sér á gamaldags nammi úr kramarhúsi. Börn á öllum aldri fá tækifæri til að kynnast víkingum í Eyjafirði þegar farið verður um landnámshluta sýningarinnar EYJAFJÖRÐUR FRÁ ÖNDVERÐU með leiðsögn.

Þar sem kosningar eru nýafstaðnar og fólk í æfingu verður hægt að kjósa um hvaða mynd á sýningunni MANSTU – Akureyri í myndum er fyndnust, fallegust og hver þeirra er þitt uppáhald. Ertu búin/n að sjá sýninguna? Ef ekki þá gefst núna skemmtilegt tækifæri til að gera það með öðrum hætti en venjulega og þeir sem þegar hafa komið geta kíkt við aftur og haft áhrif með því að kjósa líka! Þær myndir sem verða stigahæstar verða merktar sérstaklega og kynntar á heimasíðu safnsins.

Í tilefni dagsins verður spennandi leiðsögn um króka og kima safnsins , sem venjulegast er ekki farið um.  Þar gefst áhugasömum gestum að kynnast arkitektúr hússins, fyrrverandi íbúum og lífi þeirra í húsinu.

Örsýning um þróun símtækja á vegum Stoðvina Minjasafnsins mun án efa vekja kátínu meðal yngstu kynslóðarinnar. Vekja upp skemmtileg samtöl milli kynslóða um síma í öllum hans myndum og jafnvel rifjaðir upp þeir tímar sem símar, leikir í símum , internet og farsímar voru ekki til. Hvað gerðu menn þá??

Dagskráin er í boði vinafélags Minjasafnsins, Stoðvina, með dyggri aðstoð starfsfólksins.

Enginn aðgangseyrir í tilefni dagsins.