Með fulla vasa af grjóti

Dagana 26. og 27. janúar n.k. mun gestasýningin  Með fulla vasa af grjóti, verða sýnd hér í Samkomuhúsinu.   Þessi sýning bætist því við val kortagesta LA.

Þjóðleikhúsið frumsýndi þetta verk 15. september s.l. og hefur það hlotið afburða dóma. Þetta er ein vinsælasta sýning Þjóðleikhússins á síðari árum sem fer nú aftur á svið. Bráðskemmtilegt verk, fullt af leiftrandi gamansemi og hlýju.

Aðalpersónur verksins eru tveir náungar sem ráða sig sem aukaleikara í Hollywoodkvikmynd sem verið er að taka upp í nágrenni lítils þorps á vesturströnd Írlands. Fljótlega setur starfsemi kvikmyndafyrirtækisins allt á annan endann, og von bráðar eiga sér stað árekstrar á milli lífs Hollywoodstjarnanna og hversdagsleika sveitafólksins. Þessir árekstrar eru margir hverjir afar spaugilegir, en þeir geta einnig haft alvarlegar afleiðingar.

Í verkinu kynnumst við fjölda skrautlegra og skemmtilegra persóna og sem fyrr fara þeir Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson með öll fjórtán hlutverkin í sýningunni, og bregða sér jafnt í gervi karla sem kvenna.

Leikstjórn: Ian McElhinney. Útfærsla leikmyndar og búninga: Elín Edda Árnadóttir. Aðstoðarleikstjóri: Selma Björnsdóttir. Þýðing: Guðni Kolbeinsson.

Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Stefán Karl Stefánsson.