Götulistahátíðin Hafurtask á Akureyri 20-25 ágúst

„Búum okkur til viðurværi sjálf og sköpum okkar eigin tækifæri“ Leikhópurinn Þykista – nýr hópur ungra frumkvöðla frá Akureyri – stendur fyrir Götulistahátíðinni Hafurtask á Akureyri dagana 20-25 ágúst.  Áherslur hátíðarinnar endurspegla tilgang og markmið Þykistu –  að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að læra, skapa og koma sér og verkum sínum á framfæri.

Á Götulistahátíðinni  skal allt hafurtask ungra Akureyringa borið á götur og sýnt hverjum sjáandi.

Frá 20 til 25 ágúst gefst fólki á aldrinum 15-30 ára færi á að skrá sig í einhverja af þeim 5 spennandi listasmiðjum sem eru í boði og taka þannig þátt í því að skapa sýningu fyrir Götulistahátíðina – hægt er að velja um RÁÐGÁTULEIKHÚS (leiklistarsmiðja),  DANS INN ÚT (danssmiðja), HLJÓÐAKÓRINN (kórasmiðja), RÖDD Í RÝMI (gjörningasmiðja) og TÓNSJEIK (tónlistarsmiðja).  Allar nánari upplýsingar og skráning í smiðjur er á hafurtask.is  – frestur er til 19.ágúst.

Að mati Þykistu hefur lengi vantað opin vettvang eins og Götulistahátíðina Hafurtask – þar sem ekki einungis er boðið upp á tækifæri til að drekka í sig þekkingu, efla færni sína og víkka sjóndeildarhringinn undir handleiðslu fagfólks í listasmiðjunum – heldur gefst ungu fólki einnig færi á að sýna sig og sanna á þeirra eigin forsendum. Öllum ungmennum stendur til boða að koma fram á Götulistahátíðinni Hafurtask 25. ágúst, sér að kostnaðarlausu – hvort sem þau tilheyra formlegum hóp, óformlegum eða engum hóp.  Þykista aðstoðar alla hópa við kynningar og undirbúning sinna atriða.  Þegar hafa skráð atriði Nemendafélag TónAK, Hjólabrettafélag Akureyrar, Fjöllistahópurinn Fönix, Lopabandið, Eikverjar, Parkour hópur og margir, margir fleiri  – Bæði einstaklingar og hópar.  Þetta er einstakt tækifæri fyrir upprennandi listafólk Norðurlands og ómetanleg reynsla sem hlýst af þátttöku.

Hafurtask nær hámarki laugardaginn  25. ágúst  og þá verður slegið upp allsherjar uppskeruhátíðar hæfileika, sköpunar og metnaðar ungs fólks á Akureyri  sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Götulistahátíðin er hluti af Afmælisvöku Akureyrar og er styrkt af Menningarráði Eyþings og Evrópu Unga fólksins.

http://www.hafurtask.is/

Facebook: http://www.facebook.com/#!/events/119393694870449/

Listahópur að störfum á Akureyri