Framkvæmdir við Dalsbraut hefjast á næstu dögum

Horft til suðurs frá Skógarlundi í átt að Naustahverfi þar sem Dalsbraut mun liggja

Á fundi bæjarráðs í gær var tekin fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 8. júní 2012 vegna kæru á deiliskipulagi Dalsbrautar.  Í ákvörðun Úrskurðarnefndar kemur fram „Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011, um að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, er felld úr gildi að því er tekur til svæðisins milli Skógarlundar og Þingvallastrætis. Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð.“ Framkvæmdir við Dalsbraut frá Skógarlundi að Miðhúsabraut hefjist því á næstu dögum.

Í fundargerð bæjarráðs stendur: Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er sú að deiliskipulagstillagan hafi fengið lögformlega rétta málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum. Í úrskurðinum kemur einnig fram að ákvæði deiliskipulags um lagningu brautarinnar fari ekki gegn réttmætum væntingum kærenda um þróun samgöngumannvirkja á skipulagssvæðinu. Úrskurðarnefndin kemst þó að þeirri niðurstöðu að misræmi sé á milli aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að því leyti að ekki eru sýndar tengingar á aðalskipulagi við lóð Lundarskóla og íþróttasvæði KA. Þessir tæknilegu annmarkar varða nyrðri hluta Dalsbrautar og verða leiðréttir af skipulagsyfirvöldum. Niðurstaða ÚUA hefur ekki áhrif á framkvæmdir við suður hluta Dalsbrautar og er áformað að þær hefjist á allra næstu dögum.