Skólaslit Menntaskólans á Akureyri 17. júní 2012

Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í Íþróttahöllinni á Akureyri sunnudaginn 17. júní klukkan 10. Húsið er opið frá klukkan 9. Að vanda hefst athöfnin með tónlistarflutningi, en að honum loknum er ræða skólameistara. Fulltrúar afmælisárganga ávarpa samkomuna, en það eru 10, 25, 40, 50 og 60 ára stúdentar, og aldursforsetinn, fulltrúi 70 ára stúdenta, er Sverrir Pálsson fyrrum skólastjóri. Síðan hefst brautskráning 153 nýstúdenta og að loknum kveðjuávörpum og skólaslitum verður myndataka í lundinum norðan við Hóla.

Opið hús er í MA að loknum skólaslitum klukkan 12-15. Þar eru í kennslustofum sýnd dæmi um verkefni nemenda og boðið upp á veitingar. Gestum er boðið að ganga um skólahúsin og njóta verunnar þar.

Hátíðarfagnaður nýstúdenta er í Íþróttahöllinni að kvöldi 17. júní. Hátíðin er sett klukkan 19.30 en húsið opnað klukkan 18.30. Þar munu nýstúdentar gleðjast í veislufagnaði ásamt fjölskyldum sínum, vinum og starfsfólki skólans. Nemendur munu undir borðum halda uppi skemmtun með fjölbreyttum atriðum. Um miðnæturbil fara nýstúdentar samkvæmt hefð í miðbæinn og dansa á Torginu, en halda að því loknu í Höllina á ný, þar sem dansað verður undir leik Í svörtum fötum.

Að venju hefst gleði vegna skólaslita MA fyrr, en hingað í bæinn koma hundruð manna, MA-stúdentar sem halda upp á að hálfur eða heill áratugur sé liðinn frá brautskráningu. Langflestir árgangarnir hittast að kvöldi 14. júní, fara í alls kyns ferðalög 15. júní og enda sína gleði á MA-hátíðinni í Höllinni að kvöldi 16. júní.