Póstafgreiðslur og póstþjónusta á Akureyri í áranna rás.

Jón Ingi Cæsarsson skrifar: Í þessu greinarkorni ætla ég að stikla á stóru í sögum póstafgreiðslna og póstmeistara á Akureyri. Póstafgreiðslur eru samofnar sögu bæjarfélaga og það á sannarlega við hér í bæ. Grunnurinn að þessari grein birtist í Póstmannablaðinu 1989 og var skrifuð í tilefni 70 ára afmæli stéttarfélagins sem stofnað var 1919.

Upphafið.

Upphaf póstafgreiðslu á Akureyri má rekja til tilskipunar um póstmál á Íslandi frá 26. febrúar 1872. Þá var skipaður konunglegur emættismaður á Íslandi, póstmeistari með 700 ríkisdala þóknun og, og 3. maí birtist auglýsing um póstmál á Íslandi. Þar eru settir 15 póstafgreiðslustaðir, þar á meðal Akureyri með 35 ríkisdala þóknun. Akureyri var hvorki stór né fjölmennur bær á þessum árum. Bærinn hafði fengið kaupstaðarréttindi árið 1862 og íbúum fjölgaði mjög hægt. Árið 1870 voru 313 sálir í bænum og voru danskir kaupmenn mest áberandi í bæjarlífinu, enda komu þeir við sögu póstsins hér eins og í flestu öðru.

1873-1874.

Friðbjörn Steinsson ( 1838 – 1918 ) bókbindari og bæjarfulltrúi var skipaður fyrsti póstafgreiðslumaðurinn á Akureyri samkvæmt lögunum frá 1872. Vegna veikinda gat hann ekki annast það starf nema til 1874 vegna veikinda. Líklegt er að póstafgreiðslan hafi verið heima hjá honum í Aðalstræti 46, Friðbjarnarhúsi, þar sem Friðbjörn stofnaði síðar Góðtemlararegluna.

1874 – 1878.

Þegar Friðbjörn gat ekki sinnt starfinu lengur, tók við því Edvald Eilert Möller ( 1812 – 1898 ) verslunarstjóri hjá Örum og Wulff og síðar C. J. Höefphner eftir að hann eignaðist verslunina 1866. Möller þótti orðheldinn og áreiðanlegur í viðskiptum, en harður og óþýðlegur. Honum varð oft laus höndin, jafnvel við góða bændur. Möller bjó alla tíð í verslunarhúsunum meðan hann var verslunarstjóri, eða í 50 ár. Hann sat í bæjarstjórn í átta ár, þótti íhaldssamur og hvatti ekki til framfara. Pósthúsið hefur líklega verið í verslunarhúsinu sem stóð þar sem nú er Aðalstræti 17 og var eitt þeirra húsa sem brann í stórbrunanum 1901.

1879 -1904.

Þann 1. janúar 1879 tekur við póstafgreiðslumannsstarfinu Frederik Hendrik Schiöth ( 1841 – 1923). Hann starfrækti pósthúsið á heimili sínu, Aðalstræti 6, í 26 ár og þótti starfið illa launað eins og segir í samtíma heimildum. Hendrik Schiöth og kona hans Anna komu til Akureyrar frá Danmörku til að veita forstöðu fyrstu brauðgerðinni sem Höefpner stofnaði árið 1868.  Hendrik var póstafgreiðslumaður frá 1879 eins og aður sagði og mun pósthúsið örugglega hafa verið á heimili þeirra. Neðst í reykháfi hússins er innfelldur peningaskápur, sem sagður er vera frá tímum pósthússins ( Akureyri, Fjaran og Innbærinn eftir Hjöleif Stefánsson). Um Hendrik og konu hans var sagt að þau væru einhver vinsælustu hjón á Akureyri og höfðu þau mikil áhrif í bænum í 50 ár. Hann hættir störfum við Póstinn 1904 þegar hann varð gjaldkeri Íslandsbanka hins elsta. Það var í tíð Hendriks Schöth sem bréfaútburður hófst í bænum. Fyrst á Oddeyri og síðan um allan bæinn. Bæjarpósturinn var Guðmundur Jónsson frá Ólafsgerði í Kelduhverfi ( 1865 – 1926 ). Hann gengdi starfinu í 20 ár.

1904 – 1919.

Árið 1904 kemur til starfa sem póstafgreiðslumaður Friðrik K. Möller ( 1846 – 1932 ), sonur E.E. Möller sem áður er getið. Hann varð verslunarstjóri á Eskifirði en gamall Akureyringur. Sonur hans Ólafur varð frægur sem einn fyrsti baráttumaður fyrir jafnaðarstefnuna á Íslandi. Fyrst eftir að Friðrik tekur við, virðist sem pósthúsið hafi verið í Hafnarstræti 88 ( Gamli bankinn) en 1906 er pósthúsið komið í Hafnarstræti 66. Það hús var byggt sem leikhús af Gleðileikafélaginu 1986, Söngfélaginu Gígjan og Goodtemplarafélaginu. Um það bil sem póstinn er að flytja í húsið er sem notkun þess hafi dregist saman og því gott pláss fyrir póstafgreiðslu. Gódtemplarar fluttu úr húsinum þremur árum fyrr. Þarna var póstafgreiðsla til 1923. Þetta hús brann til  kaldra kola 31. janúar 1952. Í tíð Friðriks virðist starfssemin hafa aukist mikið. Árið 1915 var hann með tvo aðstoðarmenn og bæjarpóstinn. Aðstoðarmenn hans þá voru Finnur Jónsson sem fór héðan á Ísafjörð og varð þar póstmeistari. Finnur þessi varð síðar dóms og félagsmálaráðherra í Nýsköpunarstjórninni 1946. Auk Finns var Dagný Guðmundsdóttir starfsmaður Friðriks. Friðrik Möller hætti störfum 191 þá orðinn aldraður maður.

1919 – 1923.

Árið 1919 kemur til starfa við póstinn á Akureyri Guðmundur Bergsson ( 1869 – 1946) , og varð hann við stofnun Póststofu 1920 fyrsti póstmeistarinn á Akureyri. Guðmundur varð sannanlega líka fyrsti póstmaður á Akureyri sem var félagi í nýstofnuðu stéttarfélagi póstmanna. Vera Guðmundar í starfi á Akureyri var stutt og fluttist hann til Reykjavíkur og tók þar við starfi fulltrúa Póstmeistara. Guðmundur Bergsson varð annar formaður Póstmannafélags Íslands og var það til 1929.

1923 -1965.

Óli P. Kristjánsson ( 1895 – 1989 ) aðstoðarmaður Guðmundar Bergssonar varð póstmeistari á eftir Guðmundi. Þegar upp var staðið var Óli póstmeistari lengur en nokkur annar, eða í 42 ár. Alls starfaði Óli við póststörf í 42 ár. Hann sagði gjarnan þá sögu að Friðrik Möller hefði ráðið hann snarlega liggjandi í rúmi sínu með nátthúfu á höfði. Í póstmeistaratíð Óla urðu gríðarlegar breytingar á umfangi póstmála, póstmagn margfaldaðist, samgöngur bötnuðu, samgöngutæki breyttust og húsnæði lagaðist mikið. Þegar Óli hóf störf var pósturinn enn í Hafnarstræti 66 en fljótlega flutti hann í Hafnarstræti 84. Þar sameiðust póstur og sími í fyrsta sinn í sama húsnæði sumarið 1923. Áður hafði síminn verið í Hafnarstræti 3. Í Hafnarstræti 84 hafði pósturinn jarðhæðina til afnota en síminn var á annarri hæð. Þetta húsnæði varð fljótlega afar óhentugt, en þarna var samt þraukað í 21 ár. Árið 1944 var síðan flutt í húsnæði við Hafnarstræti 102 og þar var loksins byggt sérstaklega fyrir þessa starfssemi.  Húsið Hafnarstræti 84 var rifið á áttunda áratug síðustu aldar.

1965 – 1980.

Tengdasonur Óla P. Jóhann Guðmundsson varð næsti póstmeistari á Akureyri. Jóhann hafði unnið hjá póstinum frá 1936. Jóhann Guðmundsson telst vera síðasti póstmeistarinn á Akureyri því 1978, í framhaldi af lagabreytingu var hið virðulega starf póstmeistara lagt af og þess í stað varð til stöðvarstjóri Pósts og síma. Mörgum varð nokkur eftirsjá í þessu fyrirkomulagi. Starfsmönnum fjölgaði ekki mikið fyrrihluta starfstíma Jóhanns og 1971 voru 5 bréfberar á Akureyri og samtals voru starfsmenn 10.

Frá 1980.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á starfsemi póstins á Akureyri síðastliðin 30 ár. Öll starfssemi er nú horfin úr gamla húsinu að Hafnarstræti 102 og Skipagötu 10. Póstur og sími sem runnu saman í húsinu við Hafnarstræti 84 hafa nú runnið sundur á ný en það gerðist með hlutafélagvæðingu og aðskilnaði þessara félaga 1998. Pósturinn er nú aftur sérstakt fyrirtæki sem þjónustar bæjarbúa með margvíslegum og fjölbreytilegum hætti. Starfsmannafjöldi hefur margfaldast og póstur er nú fluttur á eigin farartækum í stað flugs, skipa og langferðabíla eins og tíðkaðist fram undir 1990.

Saga póstins á Akureyri er samofin sögu bæjarins. Pósthúsin hafa færst norðar í bæinn með hverjum áratugnum sem liðið hefur eins og önnur byggð. Byrjaði í gömlu Akureyri í Fjörunni, síðan á Akureyrinni niður af Búðargili og svo áfram til norðurs og er nú við Ráðhústorgið í núverandi miðbæ. Önnur afgreiðsla er á bökkum Glerár.

Læt hér staðar numið við þessa stiklur á sögu póstþjónustu á Akureyri sem sett eru hér inn af því tilefni að nú er verið að gefa út frímerki tengd Akureyri á 150 ára afmæli og annað sem gefið er út af tilefni 100 ára afmæli Lystigarðsins á þessu ári.