Skriðuföll og snjóflóð á Akureyri.

Jón Ingi Cæsarsson skrifar: Bergrunnurinn undir Akureyri eru basaltlög, um 10 milljón ára gömul. Þykk setlög frá jökultíma hylja þessi berglög, þykkust eru þessi setlög næst sjónum, þ.e. í Akureyrarbrekkum. Norðar í bæjarlandinu, t.d. í Krossanesborgum og þar fyrir sunnan sést víða í þessi berglög en eftir því sem innar dregur hverfa þau undir þessi þykku setlög. Innar í landinu fer síðan aftur að sjá í hvalbök og bergrunn eins og norðar.

Akureyrarbrekkur sem við öll þekkjum og setja hvað sterkastan svip á bæinn okkar, hækka jafnt og þétt inn eftir bæjarlandinu og eru hvað hæstar við sunnanvert Búðargil neðan kirkjugarðsins á Höfðanum. Víða eru þær brattar og þó svo þær séu nú að miklu leiti huldar trjágróðri er ekki mjög langt síðan þær voru alveg trjá og víða alveg gróðursnauðar. Lækjarfarvegir og skorningar eru nokkuð víða og jafnvægi brekkunnar hefur verið raskað með efnistöku til uppfyllinga og húsbygginga, sérstaklega á svæðinu frá norðanverðu Aðalstræti norður undir Brekkugötu.

Þegar mannshöndin fer að hrólfa við jafnvægi slíkra svæða getur auðveldlega byggst upp skriðuhætta og þó svo saga skriðufalla og snjóflóða sé aðeins frá 20. öldinni má gera ráð fyrir að á þessu svæði hafi oft komið til slíkra atburða þó enginn þeirra væri af þeirri stærðargráðu að rata í annála.

Í ljósi þessa er fróðlegt að kíkja aðeins á skriðufalla og snjóflóðasögu Akureyrar. Þó svo atburðirnir séu ekki stórir á jarðfræðilegum skala verða þeir það óneitanlega þegar hús og fólk búa undir þessum brekkum.

Kíkjum aðeins á helstu atburði á þessu svæði á 20. öldinni og hafa ratað í fjölmiðla, fyrst skriður og síðan snjóflóð.

Skriður og jarðföll.

Árið 1926 í janúar féll skriða á húsið Aðalstræti 20, hús Adólfs Kristjánssonar og Jónasar Franklín. Skriðan braut skúr bakvið húsið og aur og vatn fór inn um glugga og skemmdi innbú og olli skemmdum innanhúss.

Í september 1946 féll skriða úr Höfðanum ofan við Aðalstræti 70 og fram á götu. Einnig féll skriða úr brekkunni austan Akureyrarkirkju gegnt verslun Eyjafjörður um það bil þar sem núna stendur Hafnarstræti 81. Ekki er minnst á neinar skemmdir að völdum þessa jarðhlaups.

Í desember, nánar þann 19. desember 1972 féll skriða úr brekkunum við Aðalstræti 28. Þannig segir frá í fjölmiðlum.

Akureyri, 20. desember 1972.

MIKIL hláka hefur verið hér undanfarna daga og óhemju mikíð leysingavatn sigið niður í frostlausan jarðveginn. Tvær skriður hlupu fram í nótt af þessum sökum, sú fyrri úr Höfðanum fyrir ofan Aðalstræti 28 og sópaði hún með sér Volvo-bil, sem stóð norðan við húsið og bar hann yfir á gangstéttina austan Aðalstrætis. Bíllinn skemmdist ekki mjög mikið. Mun hann hafa flotið ofan á jarðvegsspýjunni.Hin skriðan féll um tvöleytið í nótt norðan við Akureyrarkirkju og með henni fór einn Ijósastaur, sem bar uppi fljóðljóskastara, sem lýsa upp kirkjuna. Skriðan féll á hús Smörlíkisgerðarinnar Flóru, en olli ekki miklum skemmdum, Eitthvað mun hafa losnað um jarðveg í bröttum brekkum annars staðar, svo sam ofarlega í Búðargili. ( Morgunblaðið )

Þann 26. febrúar 1974 urðu mikil flóð á Akureyri og m.a. hljóp Naustalækurinn úr farvegi og olli miklu tjóni á lóðum Aðalstrætis 64 og 66 auk þess sem mikið vatn rann inn í Aðalstræti 66 og olli þar miklu tjóni.

Árið 1990, nánar tiltekið 20. apríl féll mikil aurskriða úr brekkunni ofan Aðalstrætis 18. Skriðan virðist hafa átt upptök sín í múgum og upphækkunum við kartöflugarða nokkru ofan við húsið. Þó er meginástæða þess að svona fór að vatn frá Höfðanum við kirkjugarðinn fékk ekki framrás vegna þess að skurður sem veita átti vatninu til norðurs var fullur af snjó fossaði því vatnið niður brekkuna.

Svo er sagt frá þessum atburði í fjölmiðlum.

Enginn var í húsinu þegar aurskriðan féll um kl. 17.30 í gærdag. Húsið, sem er hæð, kjallari og ris, lyftist af grunninum er skriðan féll á það og færðist það fram um tvo metra út á götuna. Aurskriðan var um 10 metra breið. Hæðin hálffylltist af aur er skriðan féll á húsið og gekk aurinn út um glugga austan megin, út á götu og lokaði henni. Veður var afar gott á Akureyri í gær, 10,5 stiga hiti, og mikil hláka. í norðausturhorni kirkjugarðs Akureyrar, sem er um 30 metrum ofan við húsið, var geysimikið stöðuvatn og er talið líklegast það hafi fossað niður brekkuna og spýtt jarðveginum fram með fyrrgreindum afleiðingum.

Elva Ágústsdóttir, eigandi hússins, sagði húsið ónýtt sem og allt sem í því var. „Allt sem ég á er ónýtt eftir þetta. Ég hef misst aleiguna. Ég átti mikið af bókum, svo var talsvert af málverkum þarna inni, antikhúsgögn og fjöldinn allur af minjagripum sem éghef safnað að mér á ferðalögum víðs vegar um heim. Þetta er tilfinnanlegt tjón,“ sagði Elva. Hún bjó ein í húsinu og var hún að störfum úti í sveit þegar skriðan féll, en Elva er dýralæknir. „Ég var úti í sveit að vinna þegar hringt var í mig og mér sögð tíðindin. Ég ætlaði í fyrstu ekki að trúa þessu, þetta hús hefur staðið hér í Aðalstrætinu frá árinu 1895, eða í tæp 100 ár, og mér þótti óraunverulegt að heyra að það hefði tekið sig upp og færst úr stað. Mér brá mjög mikið að sjá hvernig hér var umhorfs,“. sagði Elva. I næsta húsi sunnan við hús Elvu búa þær Lagrimas Flora Valtýsson og Hellen Ducusin og voru þær heima þegar skriðan féll. „Eg var að sauma og heyrði skyndilega mikinn hávaða og leit þá út um gluggann. Þá sé ég jörðina hreyfast, snjó og aur ryðjast fram og niður brekkuna. Ég fraus af hræðslu,“ sagði Hellen Ducusin.„Eg var inni í eldhúsi að baka, þegar skriðan fór af stað, ég sá hana koma æðandi niður brekkuna og varð mjög hrædd. Ég flýtti mér að taka frystikistunaog ísskápinn úr sambandi og svo hlupum við út til að forða okkur,við vissum ekki nema skriða félli á húsið okkar,“ sagði Lagrimas

Flora Valtýsson. Þriggja ára gamall drengur, Baldvin Dagur, var að hjóla á gangstéttinni á móts við húsið í þann mund sem fyrsta aurgusan skall á húsinu. Drengurinn hljóðaði upp yfir sig af hræðslu og nágranni, sem var skammt undan, kom strax hlaupandi að og sá þá hvað verða vildi. Náði hann að bjarga barninu rétt áður en aurskriðan spýtti aurnum yfir götuna.Húsið var rifið í gærkvöldi. Að sögn Gunnars Randverssonar, varðstjóra lögreglunnar, var mælst til þess við fólk sem bjó í næstu húsum sunnan við húsið númer 18, að það yfirgæfi hús sín um stundarsakir, eða fram til dagsins í dag.

( Morgunblaðið )

Líklega er þetta sú skriða sem mestu tjóni hefur valdið á þessu svæði og má ætla að hún sé að mestu tilkomin vegna mannanna verka.

Snjóflóð.

Það er ekki margra snjóflóða getið á þessu svæði. Það sem fyrst er nefnt er að ábúandinn á Barði hafi farist í snjóflóði en Barð stóð þar sem nú er Barðstúnið ofan Hafnarstrætis 53 eða þar um bil. Þó er ekki sagt nánar hvort þessi ábúandi hafi farist í snjóflóði á þessu svæði eða annarsstaðar. Ef það hefur verið þarna í nágrenninu er þetta eina dauðsfallið af skriðföllum og snjóflóðum á Akureyri en um það verður ekkert fullyrt.

Í apríl 1919 sprakk fram fylla úr brekkunni ofan Friðbjarnarhúss og hreif með sér eitt barnið, Gústaf Jónsson síðar rafvirkja á Akureyri.  Hann barst með flóðinu alveg niður undir Friðbjarnarhús og ekkert stóð upp úr þegar flóðið stöðvaðis nema höfðuðið. Stúlka sem var þarna með Gústaf hjóp til og gróf hann upp en hann var máttfarinn mjög og aðþrengdur þegar hann losnaði. Hann fullyrti það sjálfur að stúlkan hefði bjargað lífi sínu með snarræði.

Í mars 1930, að afstöðnum miklum hríðum voru fjórir drengir að leik ofan gamla spítalans, Aðalstræti 14. Þetta voru tveir synir Konráðs gullsmiðs, Jóhann og Gunnar og með þeim voru Bragi Freymóðsson málarasonur og Sigurður Eiríksson kaupmannssonur. Jóhann hafði klifrað upp á snúrstaur og stökk í snjóinn og sökk alveg upp undir hendur. Bragi stökk til og hugðist grafa hann upp. Þá heyrðist mikill þytur og Jóhann og Bragi hurfu í flóðið, aðeins höfðuð Sigurðar stóð upp úr en Gunnar náði að stökkva upp í stiga sem stóð við vegginn. Gunnar hljóp strax eftir hjálp og kom hópur manna fljótt og fann Braga fljótlega á litlu dýpi en niður á  Jóhann voru hátt í tveir metrar. Hann var orðinn meðvitundarlítll og sagði síðar að fyrst hafi hann verið ofsahræddur en undir það síðasta verið farinn að sætta sig við örlög sín.

 

Árið 1939, þann 18. janúar féll hengja úr brekkunni fyrir ofan Aðalstræti 24. Þrír drengir voru að leik bakvið húsið og grófst einn þeirra, Karl Björnsson, níu ára, undir.  Hinir tveir sluppu naumlega og náðu í hjálp. Það var brugðist skjótt við og Björn grafinn upp og var þá orðinn meðvitundarlaus. Niður á hann var mannhæðar þykkur snjór. Drengurinn kom fljótt til meðvitundar en þarna lá við dauðaslysi vegna snjóflóða, í þriðja sinn á tiltölulega skömmum tíma.

Að lokum má geta um snjóflóð sem féll aðfaranótt 17. febrúar 1943. Það klofnaði það um Aðalstræti 63. Umhverfis húsið hrannaðist þriggja mannhæða hár snjóbingur, gluggar og hurðir skemmdust og kjallarinn hálffylltist af snjó. Flóðið sópaði með sér girðingum og heyjum fram á leirur og af því má sjá að þarna hefur farið mikið flóð, sennilega það stærsta sem getið er um í þeim gögnum sem ég hef séð.  Það flóð gæti hugsanlega hafa komið úr gilskorningi sunnan Skammagils.

Tíðindalítið hin síðari ár.

Nú hin síðari ár segir fátt af snjóflóðum og skriðuföllum úr Akureyrarbrekkum. Líklegt er að það stafi m.a. af því að í stað gróðurlítilla brekkna eru nú flest svæði í Akureyrarbrekkum hulin trjágróðri og þar sem eru ekki tré eru jarðvegur og gróður. Einnig má halda því fram hvað varðar snjóflóð að varla hefur snjómagn á Akureyri gefið mikið tilefni til snjóflóða þó enginn væri gróðurinn. Skriðuföll hafa heldur ekki verið áberandi eða mikil síðan fyllan mikla tók Aðalstræti 18 fyrir 22 árum.

Þessi samantekt er ekki tæmandi og ég hef sleppt ýmsu sem hefði gjarnan mátt fljóta með en það bíður betri tíma.

Heimildir.    

 Skiðuföll og snjóflóð I og II eftir Ólaf Jónsson. ( 1957 )

Hrun og skriðuhætta úr Akureyrarbrekkum og Húsavíkurbökkum eftir Halldór G. Pétursson, Björn Jóhann Björnsson og Jón Skúlason.  ( 2005 )