Hin síbreytilega Akureyri 3. hluti

Í dag birtum við þriðja hluta pistils Jóns Inga Cæsarssonar sem hann kallar ,,Hin síbreytilega Akureyri“.
Í tveimur pistlum hér á undan hef ég talað um þá miklu breytingar sem urðu á Akureyri með þeim uppfyllingum sem gerðar hafa verið á áranna rás. Hér ætla ég að fjalla um þá framkvæmd sem hvað mestar breytingar hefur haft í för með sér fyrir ásýnd Akureyrar og þess umhverfis sem við nú þekkjum.Þessari framkvæmd var fyrst og fremst ætlað að vera samgöngubót vegna sívaxandi umferð sem um Akureyri fór.  Bílaumferð í gegnum Akureyri hafði áratugum saman farið um gömlu Glerárbrúna neðan stíflunnar, áfram niður Brekkugötu, gegnum Miðbæinn og áfram Hafnar og Aðalstræti. Þessi leið var þröng og að stórum hluta húsagötur þannig að á árunum fyrir 1970 var farið að huga að því að koma þessari umferð á beina og breiða götu sem átti að leggja á uppfyllingu sem gerð var út í Pollinn. Það var merkilega hljótt um þessi áform og varla hægt að segja að nokkar deilur hafi sprottið upp um þessa fyrirhuguðu framkvæmd. Þessi framkvæmd var þó af þeirri stærðargráðu að allar aðrar uppfyllingar hér bliknuðu í samanburði. Þegar ég var barn og unglingur þá mátti þegar sjást að eitthvað stóð til við sjóinn innan við Torfunef. Hlössum að jarðvegi var sturtað í sjóinn á  þessu svæði ef þurfti að losna við og árum saman var strandlengjan á svæðinu frá Kaupvangsstræti og inn að Leikhúsi óttalega sóðalegt og illa um gengið. En svo hófust framkvæmdir sem um munaði og á skömmum tíma upp úr 1970 var gerð uppfylling langt fram í sjó frá Torfunefi og inn að Akureyrarflugvelli. Á þessa uppfyllingu var síðan lagður vegur og umferð hleypt á. Þar með var umferðin  farin úr gamla Innbænum og komin langt út á Poll og Leirurnar. Allt of lengi var þetta hálfkarað og lýti á umhverfinu og má sjá í bæjarblöðunum áhyggjur af þessu ástandi.  Alþýðumaðurinn skrifar 1976 um ástandið í innbænum og minnist þar á lónið sem myndaðist framan við gömlu Fjöruna. Einnig hefur blaðið áhyggjur af ástandi húsa í Innbænum.

Alþýðumaðurinn 23.tbl. 1976.

Með tilkomu Drottningarbrautarinnar myndaðist skemmtilegt lón
innan við hana og stórkostleg aðstaða til að fegra og prýða
umhverfið, en lítill sómi hefur því samt verið sýndur enn
sem komið er. Mörgum húsanna í Innbænum er illa við
haldið og varla að sé einu sinni málningarpensill borinn
þar við svo árum skiptir, en gömul timburhús þurfa mikið
viðhald ef vel á að vera. Leiðinlegaster þetta kannski fyrir
það, að um Drottningarbrautina er geysileg umferð ferðaferðafólks,
bæði því sem kemur akandi með tilkomu hringvegarins
og einnig þeirra f jölmörgu,sem Akureyri heimsækja, flug
leiðis.
Ástandið núna er allt annað og betra en það sem Alþýðumaðurinn hefur áhyggjur af. Tjörnin og umhverfi hennar er bæjarprýði og Innbærinn orðin sú perla sem honum ber. Drottningarbrautin var þarna búin að fá það nafn í daglegu tali sem síðar festist við hana. Lengi höfðu bæjarbúar og þeir sem leið áttu um Akureyri keyrt á grófum nafnlausum malarvegi á leið sinni um nýju uppfyllingarnar. En svo kom Margrét Þórhildur nýkrýnd drottning Danmerkur í heimsókn til bæjarins og drifði var í að malbika og snurfusa í kringum götuna. Þar með var nafnið komið og er vel við hæfi svona í nágrenni við danskasta bæ á Íslandi.
Verkinu lokið.

En verkinu var ekki lokið. Eftir var að tengja innri hluta Drottningarbrautar við leiðina norður Glerárgötu því enn fór umferðin um Miðbæinn og á Drottingarbraut við Kaupvangsstrætið. Til að þessi tenging gæti átt sér stað varð að fara í meiriháttar rask á viðkvæmu svæði nærri Miðbænum. Það þurfti að gera uppfyllingu frá Strandgötu til suðurs, yfir hluta af hafnamannvirknum á Torfunefi og þar með hvarf gamla strandlínan sem búin var til á árnum 1927-1928. Þetta gekk eftir en heldur meiri deilur urðu um þessa framkvæmd en þá sem sem gerð var sunnar. Íslendingur var ekki kátur með þessar framkvæmdir og ræddi þær í framhaldi af ákvörðun skipulagsnefndar þar sem þetta fyrirkomulag var fest í skipulaginu.

Íslendingur 16.tbl.1979.

íslendingur harmar afstöðu meirihluta skipulagsnefndar,
sem vill leggja hraðbrautina beint úr Glerárgötunni
inn á Drottningarbraut við Höpfnersbryggjur,
yfir Bótina, það sem eftir er af henni, og núverandi
hafnarmannvirki á Torfunefi. í upphafi vartalað um að
viðhalda því sjónarmiði við qerð skipulagsins, að halda í
sérkenni bæjarins og strandlengjunnar eins og frekast
væri kostur. Verði þetta gert er það sjónarmið fótum
troðið. Það er þegar nóg gert í landvinningum í
Pollinum. íslendingur styður sjónarmið minnihlutans.
Það verður happadrýgra að svegja brautina inn fyrir
höfnina og halda þannig að nokkru leyti í þau sérkenni,
sem Bótin skapaði ásínumtíma, þegar hún náð iallt upp
á Ráðhústorg. Menn geta síðan íf ramhaldi af þessu gert
sér í hugarlund hvernig strandlengjan við vestur og
suðurströndina lítur út, þegar hraðbrautin verðurkomin
nokkurnveginn í beinni línu úr Glerárgötu inn á
Drottningarbraut – og síðan áframhaldandi hraðbraut
þvert yfir Leirunar.

En meirhlutinn hafði sitt fram og uppfyllingin var gerð. Ytri Torfunefsbryggjan hvarf undir uppfyllinguna og kanturinn við Hafnarbakkann sömuleiðis. Öll austurröð húsanna við Glerárgötu var rifinn ásamt Strandgötu 15 og mannvirkjum á reitnum austan Skipagötu. Samtals viku því um það bil 6 hús við Glerárgötu, mörg hver stór og glæsileg steinhús, Strandgata 15, þekkt hús í bæjarmyndinni þar sem skósmiðir og söðlasmiðir áttu verkstæði sín í kjallara áratugum saman. Við þetta hús var eldsvoðinn mikli við Strandgötu 1906 stöðvaður. Strengt var segl á gafl þess og ausið á það sjó enda ekki nema steinsnar til sjávar á þessum stað á þeim tíma. Auk þessa hurfu allar skemmurnar sem settu svip sinn á hafnarsvæðið í áratugi.

Mesta breyting á bæjarmyndinni.

Að mínu mati eru þessar framkvæmdir frá áttunda áratugnum þær sem mest áhrif hafa haft á umhverfi og ásýnd Akureyrar frá upphafi. Drottningarbrautin breytti Akureyri gríðarlega mikið og nú 30 – 40 árum síðar er hægt að horfa á þetta í ljósi reynslunnar.  Þessi breyting hefur auðvitað haft gríðarleg jákvæð áhrif hvað bílaumferð snertir. Hver vildi sjá þá umferð sem er í dag fara um Hafnarstræti og Aðalstræti ? Tjörnin í innbænum sem myndaðist við uppfyllinguna er einn helsti sælureitur bæjarins með sínu fagra umhverfi, fuglalífi og auðugu mannlífi. Auðvitað var eftirsjá í húsunum við Glerárgötu og Strandgötu. Það var fórnarkostnaður þess að koma umferð í gegnum kaupstað sem lokaði leiðum með náttúrlegri strönd. Enginn gæti hugsað sér alla þá umferð sem hér fer í gegn fara um Skipagötu eða Hafnarstræti. Sjónræn breyting er einnig gríðarleg, bakhliðar húsa sem aldrei sáust nema frá sjó eru nú í alfaraleið og á uppfyllingunum utan gatnasvæðanna eru víðast hvar bílastæði næst Miðbænum. Þar hefur síður tekist til en í Innbænum.

Ef þessar framkvæmdir hefðu verið að fara í gang núna mundu þær valda miklum deilum og hart yrði tekist á um þær. Fyrir þrjátíu til fjörutíu árum var það ekki reyndin og þetta rann í gegn nokkuð ljúflega enda hugsun fólks allt öðru vísi þá en nú hvað varðar umhverfi og mannlíf. Það er reyndar svoítið fróðlegt að sjá hverskonar viðtökur þessar framkvæmdir fengju ef við ætluðum að byrjar á þessu á næsta ári.

Enn seinna kom svo Leiruvegurinn en Leirubrúin var vígð í apríl 1987 og þar með var umferð og skipulag á þessum svæðum komið í það horf sem við þekkjum í dag.