Gulleyjan frábær skemmtun

Leikfélag Akureyrar í samstarfi við Borgarleikhúsið frumsýndi í gærkvöld Gulleyjuna eftir Robert Louis Stevenson í leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar sem jafnframt leikstýrir verkinu. Í kynningu um verkið segir m.a. ,,Frægasta sjóræningjasaga allra tíma lifnar á sviðinu í þessari líflegu og bráðfyndinni leikgerð….” óhætt er að segja það orð að sönnu. Sýningin er svo skreytt með skemmtilegri tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson, sem fyrir  löngu hefur sannað snilli sína þegar tónlistin er annars vegar. Það er nokk sama hvort fólk þekkir söguna til hlýtar eða bara af afspurn eða yfir höfuð alls ekki neitt, er óhætt að segja að engin verði fyrir vonbrigðum eftir að hafa eytt kvöldstund í leikhúsinu. Leikararnir skiluðu sýni fyllilega og stóðu svo sannarlega fyrir sýnu og sérstaka athygli vakti hinn sjö ára gamli Joshua (páfagaukur ættaður frá Solomon-eyjum í Kyrrahafi fæddur á Írlandi) sem fataðist ekki flugið í frumraun sinni á leiksviðinu.

Já það þarf engan sérfræðing til þess að telja fólki trú um að sýningin sé hin besta skemmtun og miðaverðið sé hverra krónu virði. Það sást og heyrðist best á frumsýningargestum á öllum aldri. Þeir kunnu svo sannarlega að meta það sem í boði var. Þetta er svo sannarlega sýning sem höfðar til allra aldurshópa, fjölskylduskemmtun af bestu gerð.

Nokkrar myndir frá frumsýningarkvöldinu