Hörður Geirsson ljósmyndasérfræðingur með sýnikennslu í 19. aldar ljósmyndun

19. aldar ljósmyndari – sýnikennsla.

Nútíma maðurinn smellir af stafrænu myndavélinni sinni í sífellu jafnvel án þess að virða almennilega fyrir sér myndefnið sem framkallast jafn óðum. Helsta áhyggjuefnið er að tapa myndunum þegar tölvan bilar. Á fyrstu dögum ljósmyndunar var bæði tilefnið og myndefnið valið af kostgæfni enda ljósmyndir alvöru mál.

Á laugardaginn gefst tækifæri til að bregða sér aftur um aldir og fylgjast með ljósmyndara taka ljósmyndir og framkalla með efnum og aðferðum sem notaðar voru um 1850. Hörður Geirsson fer í spor Jóns Chr. Stefánssonar, timburmeistara og myndasmiðs sem fyrstur Íslendinga tók ljósmyndir með votplötutækni sem hann hafði lært í Kaupmannahöfn 1858.

Hörður Geirsson ljósmyndasérfræðingur Minjasafnsins á Akureyri hefur undanfarið ár numið 19. aldar ljósmyndafræði í Kalifornínu og gert tilraunir með slíka tækni sem kölluð er votplötutækni (wetplate) eða collodion. Notast er við framandi efni og myndin framkölluð á glerplötu og málmplötu. Hörður er nú að smíða eigin myndavél frá grunni en mun nota myndavél frá 1880 á laugardaginn ásamt færanlegu myrkraherbergi – myrkrakassa sem hann hefur smíðað.

Látið ekki einstakt tækifæri framhjá ykkur fara og hverfa aftur í tímann til að fylgjast með 19. aldar ljósmyndaranum og töfrabrögðum hans frá myndatöku til framköllunar.

Sýnikennslan fer fram á Minjasafninu á Akureyri laugardaginn 24. september milli 14 og 16.