Hermann Jón Tómasson nýr bæjarstjóri

Hermann Jón tekur við lyklunum að ráðhúsinu síðdegis í dag. Mynd/Örlygur Hnefill

Hermann Jón tók við lyklunum að ráðhúsinu síðdegis í dag. Mynd/Örlygur Hnefill

Hermann Jón Tómasson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, tók við starfi bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar nú fyrir stundu. Er það samkvæmt samstarfssamningi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, en þar kom fram að bæjarstjóri skyldi fyrstu 3 árin koma úr röðum sjálfstæðismanna, en síðasta árið frá Samfylkingunni. Hermann er þriðji bæjarstjóri Akureyrar á kjörtímabilinu, en Sigrún Björk Jakobsdóttir, forveri Hermanns, tók við starfinu þegar Kristján Þór Júlíusson var kosinn á þing árið 2007. Kristján Þór hætti á fundinum sem forseti bæjarstjórnar og var Sigrún Björk kosin í það embætti.

Hermann fæddist árið 1959 og ólst upp á Dalvík. Hann stundaði nám í Dalvíkurskóla, Menntaskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands og í Texas Tech University. Hann hefur einnig stundað nám í stjórnun við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann hefur lengst af unnið við kennslu, ráðgjöf og stjórnun í framhaldsskólum, fyrst við Fjölbrautaskóla Vesturlands, síðan í MA og frá 1989 í VMA. Hermann var varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar 2002-2006. Síðan 2006 hefur Hermann Jón gegnt embætti formanns bæjarráðs.

Hermann er kvæntur Báru Björnsdóttur leikskólakennara og eiga þau þrjú börn, Tómas, fæddur 1981, Harpa, fædd 1988 og Bjarki, fæddur 1996.

Enginn aukakostnaður verður vegna skiptanna. Bæði Hermann Jón og Sigrún Björk, fráfarandi bæjarstjóri hafa lýst því yfir að þau muni ekki þiggja biðlaun í lok starfstíma síns sem bæjarstjórar.

[media id=24 width=640 height=360]