Skuldabréf E-Farice seld fyrir fimm milljarða króna

Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Saga Capital

Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Saga Capital

Saga Capital fjárfestingarbanki lauk í gær við að sölu skuldabréfa E-Farice fyrir alls fimm milljarða króna. Skuldabréfin voru seld í lokuðu skuldabréfaútboði á innlendum verðbréfamarkaði og var mikil umframeftirspurn eftir bréfunum, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum. Um er að ræða skuldabréf til 25 ára með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs. Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Saga Capital, segir að þessi mikla eftirspurn sýni að skuldabréfamarkaðurinn sé að rétta úr kútnum. ,,Í núverandi árferði skiptir það fyrirtæki öllu máli að geta sótt sér lán á sanngjörnum kjörum. Þetta eru því sannarlega jákvæðar fréttir sem benda til þess að eftirspurn eftir skuldabréfum í traustum fyrirtækjum sé að aukast,“ segir Ómar í tilkynningu.

Saga Capital Fjárfestingarbanki annaðist bæði umsjón og sölu bréfanna og mun skrá þau í Kauphöll Íslands, NASDAQ OMX Nordic Exchange. Bankinn hefur að undanförnu
verið leiðandi á markaði í sölu skuldabréfa fyrir íslensk sveitarfélög og opinbera aðila og hefur haft umsjón með sölu skuldabréfa fyrir Kópavogsbæ, Árborg, Norðurþing, Fljótsdalshérað og Byggðastofnun.

Með skuldabréfasölunni er E-Farice að sækja sér fé til að fjármagna lagningu DANICE sæstrengsins á milli Íslands og Danmerkur. DANICE er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu á stöðugu og góðu gagnasambandi á milli Íslands og meginlandsins og mun verulega auka áreiðanleika og flutningsgetu útlandasambanda og nettenginga landsmanna. Strengurinn er jafnframt ein meginforsenda þess að hægt verði að byggja upp alþjóðleg gagnaver hér á landi. E-Farice hefur nú þegar undirritað samninga við Verne Holding, sem er að byggja gagnaver á Keflavíkurflugvelli og á í viðræðum við fleiri slíka aðila.