Nýir þingmenn Norðausturkjördæmis

Fjórir nýir þingmenn taka sæti á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi. Tryggvi Þór Herbertsson prófessor er nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks, en hann ýtti Arnbjörgu Sveinsdóttur niður um sæti í prófkjöri. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir eru ný inni af lista Samfylkingarinnar. Sigmundur á að baki langan feril sem frétta- og blaðamaður og hefur einnig starfað sem rithöfundur, en Jónína Rós kennir við Menntaskólann á Egilstöðum. Þá kemur Björn Valur Gíslason skipstjóri inn sem nýr þingmaður af lista Vinstri grænna.

Segja má að Akureyringar eignist nú tvo nýja þingmenn. Sigmundur Ernir er nýr frá Akureyri, þó hann hafi búið í Reykjavík um langt skeið, en hann hefur ætíð verið með annan fótinn norðan heiða og starfað að félagsmálum hér í bænum. Síðustu ár hefur hann verið formaður Leikfélags Akureyrar. Þá hefur Björn Valur Gíslason búið hér á Akureyri um nokkurra ára skeið, en hann bjó áður í Ólafsfirði. Fyrir voru svo þingmennirnirKristján Þór Júlíusson frá Sjálfstæðisflokki og Höskuldur Þórhallsson frá Framsóknarflokki en þeir hafa báðir búið lengi á Akureyri.

Kjördæmakjörnir þingmenn
· Steingrímur J. Sigfússon (V)
· Birkir Jón Jónsson (B)
· Kristján L. Möller (S)
· Kristján Þór Júlíusson (D)
· Þuríður Backman (V)
· Höskuldur Þór Þórhallsson (B)
· Sigmundur Ernir Rúnarsson (S)
· Björn Valur Gíslason (V)
· Tryggvi Þór Herbertsson (D)

Uppbótarþingmaður
· Jónína Rós Guðmundsdóttir (S)