Svifflugfélag Akureyrar 70 ára

Svifflugfélag Akureyrar varð 70 ára þann 9. apríl síðastliðinn og í tilefni dagsins tóku félagsmenn sig til og flugu frá Akureyrarvelli. Veðurskilyrði voru ákjósanleg og flugu Sigtryggur Sigtryggsson og Einar Björnsson sitt flugið hvor í rúman klukkutíma.

Svifflugfélag Akureyrar var stofnað 1937 og sama ár eignaðist félagið sitt fyrsta flugtæki, sem var rennifluga af gerðinni Grunau-9. Hún var einsæta, var skotið á loft með teygju og nemendur þurftu því að fljúga öll sín flug einir eftir leiðsögn frá kennara á jörðu niðri.
Árið 1946 eignaðist SFA tveggja sæta svifflugu sem kom frá bandaríska hernum og var hönnuð var til að þjálfa herflugmenn og þá var í fyrsta sinn  hægt að senda kennara með flugnemunum. Flugfloti félagsins hefur verið endurnýjaður reglulega eftir þetta og eldri vélar félagsins hafa fengið heiðurssess í Flugsafninu á Akureyri á Akureyrarflugvelli og er stefnt á að halda sérstaka afmælissýningu í sumar í nýju skýli Flugsafnsins sem nú er að rísa.

Í 70 ára sögu svifflugfélagsins hafa ótal flugmenn hafið sig í fyrsta sinn til skýjanna hjá félaginu og eru þar á meðal margir af landsins þekktustu flugstjórum. Akureyri hefur verið nefnd vagga flugsins á Íslandi enda rekur Icelandair rætur sínar til stofnunar Flugfélags Akureyrar sumarið 1937 og á það félag því einnig 70 ára afmæli í ár. Þar sem nokkrir mánuðir eru á milli getur Svifflugfélagið því litið á á Icelandair sem litla bróður.

Svifflugfélagið er að fjárfesta í nýrri svifflugu í sumar og má því eiga von á að afmælisárið verði ánægjulegt. Allar upplýsingar er hægt að nálgast á slóðinni www.svifflug.is .