Ferðaskrifstofa Akureyrar: Fjöldi ferða í beinu flugi frá Akureyri

Ferðaskrifstofa Akureyrar skipuleggur á þessu ári fjölda ferða til nokkurra áfangastaða í Evrópu í beinu flugi frá Akureyri. Á döfinni er einnig aukið samstarf við Úrval-Útsýn sem meðal annars mun nýtast íþróttahópum á Norðurlandi.

Beint flug frá Akureyri til áfangastaða í Evrópu hefur notið mikilla vinsælda enda munar mikið um að þurfa ekki að ferðast fyrst þvert yfir landið áður en utanlandsferðin sjálf getur hafist. Norðlendingar meta mikils að geta farið suður án þess að þurfa fyrst að fara suður! Fyrir Akureyringa eru ómæld þægindi fólgin í því að þurfa aðeins sjö mínútur til að komast að heiman í innritun fyrir flug til annarra landa.
 
Áhersla á stuttar vor- og haustferðir
Ferðaskrifstofa Akureyrar býður upp á ferðir í beinu flugi frá Akureyri í vor og haust, með áherslu helgarferðir til nokkurra borga og stuttar sólarlandaferðir. Áfangastaðirnir eru Kaupmannahöfn, Barcelona, Dublin, Hamborg, Varsjá, Mallorca og Krít.
Af þessu tilefni kemur í dag út viðamikill bæklingur undir heitinu Stutt út, beint flug frá Akureyri 2006. Bæklingurinn er prentaður í 12.000 eintökum og dreift inn á öll heimili á svæðinu frá Ólafsfirði austur til Húsavíkur. Þetta er í fyrsta skipti sem Ferðaskrifstofa Akureyrar ræðst í útgáfu kynningarbæklings af þessari stærðargráðu.

Í boði eru páskaferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar 13., 17., 20. og 24. apríl þar sem möguleiki er að hefja ferð hvort sem er á Akureyri eða í Kaupmannahöfn. Í maí er boðið upp á helgarferð til Hamborgar og vikuferð til Krítar. Jafnframt er í boði gönguferð um Krít. Í september og október eru í boði helgarferðir til Barcelona, Dublin og Varsjár og vikuferðir til Mallorca og Krítar. Einnig er boðið upp á aðventuferð til Kaupmannahafnar. Sala er hafin í flestar þessara ferða og er nú þegar nær uppselt í einhverjar þeirra. Að auki hefur Ferðaskrifstofa Akureyrar umboð fyrir nokkra málaskóla í Englandi, Þýskalandi og á Spáni.

Aukið samstarf við íþróttadeild Úrvals-Útsýnar
Nýjasta viðbótin í starfsemi Ferðaskrifstofu Akureyrar er aukning á samstarfi við íþróttadeild Úrvals-Útsýnar. Með samstarfinu skapast ný tækifæri fyrir íþróttahópa á Norðurlandi til æfinga- og keppnisferða.