Listi fólksins: Framboðsmál í athugun

L-listinn, listi fólksins, bauð fyrst fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1998 og fékk einn mann kjörinn. Árið 2002 bætti hann við sig manni og á nú tvo fulltrúa í bæjarstjórn. L-listinn er hópur áhugafólks um velferð Akureyrar og íbúa hennar og opinn öllum, óháð stjórnmálaskoðun. L-listinn, listi fólksins, heldur ekki félagatal.

Á fundi hjá L-listanum í gærkvöldi 23. janúar, var ma. rætt um hvort L-listinn myndi bjóða fram við sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor. Í framhaldi af því var settur á stofn starfshópur til að fara yfir þau mál, kanna áhuga fólks og hverjir vildu halda áfram og hverjir væru hugsanlega nýir.

Ákveðið er að funda aftur með starfshópnum næsta mánudag, 30. janúar, og á þeim fundi gera forsvarsmenn listans ráð fyrir að undirbúningsvinna verði komin svo langt að boðað verði til fundar um hvenær framboð verður endanlega ákveðið. Það er því ætlunin að fyrir liggi fyrir miðjan febrúar hvort L-listinn, listi fólksins, bjóði fram lista fyrir kosningarnar í vor.