Verðkönnun á hárgreiðslustofum á Akureyri

Neytendasamtökin gerðu verðkönnun á 10 hárgreiðslustofum á Akureyri
27. október síðastliðinn. Í ljós kom að verðmunur á milli stofa er
töluverður og er hárgreiðslustofan Snyrtihúsið oftast með lægsta verð.
Í sumum tilfellum getur munað miklu á hæsta og lægsta verði, mest um
70%. Minnsti munur er tæp 20%. Engin ein stofa sker sig úr með áberandi
hæsta verð og lítill verðmunur er á þeim stofum sem eru með hvað hæst
verð. Nær allar stofurnar bjóða upp á einhvern afslátt fyrir
ellilífeyrisþega og öryrkja.

Vandasamt að bera saman verð
Verðkönnun
á þjónustu hárgreiðslustofa er nokkuð vandasöm þar sem verðlagningu er
misjafnlega háttað eftir stofum. Það á t.d. við um barnaklippingu.
Sumar stofur eru með þrenns konar verð fyrir mismunandi aldurshópa og
misjafnt er við hvaða aldur er miðað. Einnig getur skipt máli hversu
mikið er klippt og hversu langan tíma verkið tekur. Herraklipping er
ýmist venjuleg klipping eða vélarklipping, sem er yfirleitt ódýrari.
Sumar stofur gera greinarmun á lagningu annar vegar og léttþurrkun og
blástri hins vegar. Þá getur verð á einstaka liðum verið breytilegt
eftir því hversu auðvelt/vandasamt verkið er. Það er því erfitt, ef
ekki ómögulegt, að gera beinharðan verðsamanburð en könnunin gefur þó
ágæta vísbendingu um verðlag á hárgreiðslustofum.

Virk samkeppni
Ekki
eru allar hárgreiðslustofur á Akureyri með í þessari könnun en ljóst er
að Akureyringar og nærsveitamenn búa við mikið úrval af
hárgreiðslustofum og virka samkeppni. Ef miðað er við könnun
Samkeppnisstofnunar á hárgreiðslustofum í Reykjavík frá árinu 2004 er
verðlag á hárgreiðslustofum á Akureyri viðunandi.

Gjaldskrá skal vera aðgengileg
Nokkur
misbrestur er á aðgengilegri gjaldskrá á mörgun stofum og sums staðar
voru verðmerkingar hvergi sjáanlegar. Bestu merkingarnar voru á
hárgreiðslustofunni Design, en þar er sýnileg gjaldskrá á
afgreiðsluborði og við alla stóla.

Í þessari könnun er einungis um verðsamanburð að ræða og ekki tekið tillit til þjónustu eða gæða.

Smellið hér til að sjá verðsamanburð.