Menning

Arna Valsdóttir með leiðsögn í Listasafninu á Akureyri

Skrifað 17. september 2014 klukkan 08:47 | | Menning, Sýningar |

Arna ValsFimmtudaginn 18. september kl. 12 mun Arna Valsdóttir bjóða upp á leiðsögn um sýningu sína Staðreynd – Local Fact sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Á sýningunni má sjá myndbandsverk sem Arna hefur sett upp á síðustu sjö árum ásamt nýju verki sem er sérstaklega gert fyrir þessa sýningu auk verksins La frá árinu 1988 sem markar ef til vill upphafið á rýmistengdum verkum Örnu.

Arna Valsdóttir nam myndlist við MHÍ og Jan van Eyck Academie í Hollandi þaðan sem hún lauk námi árið 1989. Í Hollandi var Arna þegar farin að gera tilraunir með nýja miðla tengdum gjörningum, tónlist, ljósmyndun og myndvörpun auk hefðbundnari myndlistar. Á þessum tíma fór hún einnig að flétta eigin söngrödd inn í verk sín. Þessar aðferðir hafa verið gegnumgangandi í sköpunarferli Örnu allt til dagsins í dag og hún hefur unnið margvísleg verk þar sem hún nýtir eigin rödd í fjölbreytt rýmisverk og gjörninga, bæði sem vídeóverk og innsetningar.

 

Sýningin stendur til 12. október og er Listasafnið opið kl. 12-17 þriðjudaga-sunnudaga. Aðgangur er ókeypis.


Norrænir kvikmyndadagar

Skrifað 15. september 2014 klukkan 21:06 | | Menning, Sýningar |

Norraena kvikmyndavika 2014Norrænir kvikmyndadagar hefjast í Sambíói á Akuryeyri fimmtudaginn 18. september og standa fram til þriðjudagsins 23. september. Sýndar verða sex kvikmyndir, ein á hverjum degi og er aðgangur ókeypis. Það er Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri, KvikYndi, kvikmyndaklúbbur Akureyrar og sendiráð Danmerkur. Noregs og Svíþjóðar sem standa að Norrænu kvikmyndadögunum.

Opnunarmynd kvikmyndadaganna á Akureyri fimmtudaginn 18. september, er Palme, heimildarmynd um sænska forsætisráðherrann Olof Palme sem féll fyrir hendi morðingja 1986.

Dagskrá Norrænna kvikmyndadaga:

18. sept. kl. 20:00     Palme (Heimildarmynd um Olof Palme) Svíþjóð 2012

19. sept. kl. 17:40      Manden som elsket Yngve – Noregur 2008

20. sept. kl. 17:40      Marie Krøyer – Danmörk 2012

21. sept. kl. 17:40      En kongelig affære (A royal affair) – Danmörk 2012

22. sept. kl. 17:40     Himlen är oskyldigt blå (Behind blue skies) Svíþjóð 2010

23. sept. kl. 17:40     Upperdog – Noregur 2009

Clara Lachman sjóðurinn styrkir kvikmyndadagana.

Nánari upplýsingar um myndirnar, dagskrána og stiklur úr myndunum má sjá á vef kvikmyndaklúbbsins, www.kvikyndi.is og á heimasíðu Norrænu upplýsingaskrifstofunnar www.nordeninfo.is


Fagurfræðin ríkir – samspil myndlistar og reksturs fyrirtækis

Skrifað 12. september 2014 klukkan 17:30 | | Menning, Sýningar |

FagurfraediFrumkvæði-fagmennska-fegurð

Nú stendur yfir í Ketilhúsinu (Sjónlistamiðstöðinni) á Akureyri sýningin Skapandi greinar. Þóra Þórisdóttir er í forsvari fyrir sýningunni en hún hefur í gegnum tíðina fengiðst við ýmislegt s.s. myndlist, rekstur gallerís, listgagnrýni, listfræðikennslu við HÍ, listaverkasöfnun og rekur um þessar mundir fjölskyldufyrirtæki sitt í Hafnarfirði; Urta Islandica ehf. Þar eru framleiddar sultur, jurtasölt, jurtate og jurtasyróp. Einkunnarorð fyrirtækisins eru frumkvæði-fagmennska-fegurð. Hinn fagurfræðilegi, sjónræni þáttur er ráðandi í öllu sem við kemur framleiðslunni og ákvarðar t.d. form á pottum og krukkum og liti á framleiðslutækjum. Á bls. 33 í sýningaskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar fyrir árið 2014 skrifar Hannes Sigurðsson „Myndlistarmaðurinn og athafnaskáldið Þóra Þórisdóttir hefur reynt á eigin skinni að neyðin kennir naktri konu að spinna. Hún telur að styrkja eigi tengingu listanna við alla framleiðslu í stað þess að líta einungis á þær sem skrautumbúðir á lokastigum vinnslunnar eins og oft er raunin.“

Iðnaðarfagurfræði

Áhorfandinn dettur inn í skapandi framleiðslufyrirtæki að störfum, innan veggja Ketilhússins. Það fyrsta sem sýningargestir sjá eru risastórir pottar, staðsettir á miðju gólfi, Þóru hrærandi í þeim með stærðarinnar priki eða bak við búðarborð að sinna viðskiptavinum og tilfallandi störfum tengdum fyrirtækjarekstri. Ketilhúsið gengur þarna í endurnýjun lífdaga sem athafnasvæði iðnaðarframleiðslu. Þóra litar band á staðnum og hefur náð ótrúlega fjölbreytilegum litablæbrigðum eingöngu með því að nota krækiber með mismunandi sýrustigi. Í bakgrunninum er stærðar kopar-eimingartæki og við hlið þess glerkassar fullir af birkilaufi. Á vegg hangir röð af teikningum úr fyrirtækinu, í verslunarhúsnæði á neðstu hæð að heimili þeirra í Hafnarfirði. Á öðrum vegg eru hillur með tómum flöskum og mynda þær einskonar veggskúlptúr, allt fellur afar vel saman, efniviðurinn og öll hlutföll. Áhorfandinn vill ólmur fara að taka til hendinni – slík er sköpunin og starfsgleðin, sem svífur þarna yfir vötnum. Almenningur hefur afar sjaldan daglegan aðgang að fyrirtækjum sem vinna á þennan hátt, og síst af öllu innan veggja listasafna, þetta eru því einstakar aðstæður og tækifæri. Framleiðsluvörurnar eru til sölu og á vegg er myndband af framleiðsluferlinu, bæði á 2. og 3ju hæð.

Þóra Þórisdóttir er í forsvari fyrir sýningunni.

Þóra Þórisdóttir er í forsvari fyrir sýningunni.

Umhverfisvitund og samfélagsábyrgð

Gamla matarbúðin, Urta Islandica stendur á skilti sem hangir neðan úr loftinu á efstu hæð eða svölum Ketilhússins. Þarna gefur að líta fjóra færanlega vöru- og sýningarskápa. Fyrirtækið hefur umhverfisvitund og samfélagsábyrgð á stefnuskránni, kaupir listaverk og hafa forsvarsmenn þess mikinn áhuga á list, handverki og hönnun. Þarna hanga á veggjum m.a. sýnishorn af verkum sem fyrirtækið hefur fest kaup á eftir Finnboga Pétursson, Guðrúnu Einarsdóttur, Jóhönnu Helgu þorkelsdóttur, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Ragnhildi Jóhannesdóttur. Þarna er vörunum raðað af einstakri smekkvísi innan um listaverkin. Jurtasöltin eru í mismunandi fallegum litablæbrigðum sem og merkimiðarnir. Í öðrum skáp eru fallega hannaðir pokar með tei í, krukkur með jurtasýrópi og berjasultum. Í glerborði er hægt að sjá hluti tengda berjavinnslu og vatnslitamyndina sem auglýsir sýninguna. Nokkru frá stendur blágrænn skápur með hafsalti frá Norðursalti á Reykhólum en Þóra notar þetta salt í kryddblöndurnar sínar. Verðlaunaðar, fallegar umbúðir saltsins með mynd af hafmeyju færandi salt, slá nostalgískan tón. Þarna er einnig sýnt myndband um framleiðsluferlið. Á veggnum hanga fallegar ljósmyndir af fjörugróðri, steinum og vatni sem englafjárfestir/bjargvættur fyrirtækisins tók, Lilja Sigrún Jónsdóttir, móðir Þóru. Nær glugganum stendur gamalt snjáð borð og stóll í stíl og sólskinið fellur á litað marglitt band í ferhyrndum hekludúkum eða servéttum. Lítill bolti úr sama bandi er þar líka, sem brýtur upp formið, hún átti fleiri en hundurinn komst í þá og grandaði. Bandið er eftir Jennýju Karlsdóttur sem búsett er hér og Guðrúnu Bjarnadóttur starfandi á Hvanneyri.

Samtal ólíkra þátta

Hinir mörgu og ólíku þættir sýningarinnar tengjast afar vel saman og styrkja hvorn annan. Sýningin tengir áhorfandann við náttúruna og vekur til umhugsunar um náttúruvernd því allt það sem náttúran færir okkur þarfnast verndar, virðingar og alúðar.

Sýningin gerir áhorfandann meðvitaðan um gildi fagurfræðinnar; að hlutföll, form, litir, efni, efnismeðferð sem og staðsetning hlutanna í rýminu, skiptir ekki síður máli en innihald, gæði og bragð framleiðsluvörunnar. Einning hvernig hlutirnir harmonera saman, hvaða áhrif þeir hafa hver á annan og endanlega á upplifun áhorfendans. Þegar gengið er á milli hæða í Ketilhúsinu eru nokkrar innrammaðar vatnslitamyndir við uppganginn. Þær voru unnar af starfsfólki Urta Islandica á meðan þau tóku þátt í mótmælum í Gálgahrauni í fyrra.

Orðin græða og gróði geta verið með jákvæðum formerkjum

Þóra telur gott að vinna í skapandi ferli sýningarinnar daglega dags. Hún segir að allt miðist venjulega við sýningaropnanir en að þetta sé allt öðruvísi. Það hefur verið gaman segir hún, að hitta daglega sýningargesti og viðskiptavini og ræða við þá um allt sem sýningin spannar; listina, fagurfræðina, jurtirnar, náttúruna, handverkið og svo söluna og það að geta lifað af rekstrinum. Hún talar um að mjög margir útlendingar komi sem sjálfir séu starfandi í listum á einn eða annan hátt. Hún talar um mikilvægi þess að taka vel á móti safnagestum almennt á söfnum og mikilvægi fagþekkingar á listum í móttökunni, andliti safnsins. Hún talar um peninga sem hreyfiafl og að margar konur séu feimnar við að selja og græða, þær haldi að það sé bara eitthvað fyrir gráðuga kapitalista. Sýningin ýtir undir ímyndunarafl og sköpun og getur leitt áhorfandan á áður óþekkt svið ef hann lætur hrífast með og reynir sjálfur að nýta efnivið í umhverfi sínu, skapa og þróa. Í tengslum við sýninguna ætlar Þóra á n.k. laugardag, 13. september kl. 14, að hafa viðburð tengdan litun á bandi. Sýningin er opin alla daga kl. 12-17 nema mánudaga og stendur til 21. september.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir

Fræðslufulltrúi Sjónlistarmiðstöðvarinnar á Akureyri

Greinin birtist í Akureyri vikublað 11. september 2014


Syngdu með

Skrifað 07. september 2014 klukkan 20:35 | | Menning, Tóneyrað |

 

Nokkuð þyrfti hann þó að huga að því að hemja sviðsframkomu sína,“ skrifar Haukur Ágústsson m.a. í fremur lofsamlegri gagnrýni um tónleika í Hofi.

Nokkuð þyrfti hann þó að huga að því að hemja sviðsframkomu sína,“ skrifar Haukur Ágústsson m.a. í fremur lofsamlegri gagnrýni um tónleika í Hofi.

 

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands efndi til fyrstu tónleika sinna á starfsárinu 2014-2015 í Hamraborgarsal Menningarhússins Hofs 29. ágúst. Í raun var ekki um að ræða fullskipaða sinfóníuhljómsveit, heldur strengjasveit skipaða 11 strengjaleikurum, en sá flokkur var styrktur flautu, klarinetti, gítar, rafkontrabassa og trommum. Hljómsveitarstjórinn, Daníel Þorsteinsson, lék einnig með á flygil og stjórnaði iðulega frá hljóðfæri sínu.

Hljómsveitin var ánægjuleg á að hlýða. Hún var vel þétt og lék af öryggi. Innkomur voru góðar og blæbrigði, sem fyrir komu, vel útfærð. Þó þurfti nokkuð á sig að leggja til þess að nema hljómsveitina, þar sem magnaður flutningur var nokkuð hátt stilltur framan af, eða svo mjög, að í hljóminn kom heldur óskemmtilegur gjallandi, sem verulega spillti flutningi.

Útsetningar sem næst allar voru eftir stjórnandann, Daníel Þorsteinsson. Daníel er sívaxandi tónlistarmaður, sem verulega ánægjulegt er að fylgjast með. Hann hefur sett út mikið fyrir kór og einnig meðleik á píanó með öðum flytjendum, en þetta var í fyrsta skiptið, sem undirritaður átti þess kost hlýða á hljómsveitarútsetningu frá Daníels hendi.

Nokkuð skipti í tvö horn. Í fyrri hluta tónleikanna voru útsetningar að mestu litlitlar og  sem næst sem uppfylling að baki söngvaranna, sem í þessum hluta voru að mestu í einsöngvaraham. Lítið var um það, að í útsetningunum væru atriði, sem ýttu undir hrif flutningsins. Annað var í seinni hluta tónleikanna. Í þeim hluta var til þess hugsað, að tónleikagestir tækju undir og var textum varpað upp á sýningartjald aftast á sviðinu. Hér breyttu útsetningar Daníels Þorsteinssonar um brag. Fram komu skemmtilegar útfærslur, þar sem útsetjarinn beitti til dæmis jazzískum blæ í laginu „Fyrr var oft í koti kátt“, þar sem Daníel átti snoturt jazz-innskot á flygilinn í millikafla. Einnig komu fram útsetningar, sem gáfu flutningi mikinn lit, svo sem í laginu „Á Sprengisandi“, þar sem útsetjarinn fór á kostum og hljómsveitin skilaði sínu með prýði. Þá má nefna góða útsetningu lagsins „Tondeleyó“, sem féll vel að laginu og bjó líka að fallegu gítarsólói Hallgríms Jónasar Ómarssonar.

Vonandi gefast Daníeli Þorsteinssyni fleiri tækifæri til þess að spreyta sig á útsetningum fyrir hljómsveit. Margt í því, sem fram kom einkum í seinni hluta tónleikanna í Hofi 29. ágúst, bendir eindregið til þess, að hann hafi til að bera þá tilfinningu fyrir tónferð og blæbrigðum hljóðfæra, sem til þarf til þess að auka hrif flutnings tónlistar.

Söngvarar á tónleikunum í Hofi 29. ágúst voru Óskar Pétursson, Ragnheiður Gröndal og parið Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir. Óskar Pétursson fór víða vel með. Í upphafi leið þó flutningur hans fyrir rangt stillta mögnun í laginu „Hamraborgin“, en með því hóf hann tónleikana. Hann var hins vegar að fullu í essinu sínu og mögnun þá orðin nokkuð hófleg í laginu „Heyr mína bæn“ og einnig í „Draumalandinu“. Ragnheiður Gröndal nýtti í fyrri hluta tónleikanna hvískrandi raddbeitingu og iðulega ógreinilegan framburð ekki síst í laginu „Ástarþula“, sem er eftir hana sjálfa og einnig útsetningin. Í ljós kom í seinni hluta, að hún hefur til að bera verulega söngrödd, sem getur haft á sér bjartan og ánægjulegan blæ. Lára Sóley Jóhannsdóttir beitti einnig hvískri nokkuð mikið og fyrir kom, að röddin leitaði fram í nefið, en einnig hún nær iðulega fallegum flutningi, sem gaman er að njóta. Hjalti Jónsson býr greinilega að miklum sönghæfileikum og hefur tök á umtalsverðri vídd í brag og túlkun og kom það ekki síst fram í flutningi hans á laginu „Þú komst við hjartað í mér“, þar sem hann beitti ýmsum stílbrögðum og gerði talsvert mikið vel. Nokkuð þyrfti hann þó að huga að því að hemja sviðsframkomu sína.

Tónleikagestir tóku víða vel undir í seinni hluta tónleikanna og náðu hástigi í laginu „Vor Akureyri“, þegar þeir risu úr sætum og luku hinum eiginlegu tónleikum með bravúr, en eftir fylgdu tvö aukalög svo sem punkturinn yfir i-ið.

Haukur Ágústsson

Akureyri vikublað 4. september 2014


Leitin að Grenndargralinu hefst í september

Skrifað 06. september 2014 klukkan 22:00 | | Fréttir, Menning, Sýningar |

GrenndargralidLeitin að Grenndargralinu 2014 hefst föstudaginn 12. september kl. 18:00. Sem fyrr eru það nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar sem freista þess að finna Gralið. Fyrstu ár Leitarinnar var hún viðbót við hefðbundið nám og stóð þannig fyrir utan hefðbundinn vinnuramma nemenda. Leitin er nú komin í hóp valgreina á unglingastigi og verður því metin sem slík. Öllum krökkum í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar er hins vegar velkomið að taka þátt, ekki síður þeim sem eru ekki með Leitina sem valgrein. Allar nánari upplýsingar um Leitina má finna á fésbókarsíðu og heimasíðu Grenndargralsins (www.grenndargral.is ).

Framundan er löng og ströng leit. Grenndargralið vill hvetja foreldra og aðra aðstandendur þátttakenda í Leitinni til að aðstoða þá við úrvinnslu þrautanna. Leitin er kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur og vini að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Akureyri vikublað 4. september 2014

Meira um Grenndargralið á Akureyri.net á morgun, sunnudag.


Ný sýning opnuð

Skrifað 05. september 2014 klukkan 12:00 | | Menning, Sýningar |

deiglanLaugardaginn 6. september opnar í Deiglunni sýning Victors Ocares, Hotel Terminus. Á sýningunni leikur hann sér að hugtökum á borð við óvissa og þekking og veltir fyrir sér hvort mörkin þar á milli séu í rauninni jafn skýr og af er látið.

Victor Ocares útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2013. Listsköpun hans er lituð dulhyggju sem leitar meðal annars fanga í heimspeki og vísindum. Á sýningunni notast Victor við margvíslega miðla eins og tónverkt, skúltúra og myndverk.

Sýningin stendur til 5. október og er opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.

Akureyri vikublað 4. september 2014


Málverk í Bergi

Skrifað 03. september 2014 klukkan 12:16 | | Menning, Sýningar |

Gudbjorg RingstedLaugardaginn 6. september kl. 14 opnar Guðbjörg Ringsted sýningu á málverkum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þetta er 30. einkasýning Guðbjargar og eru 6 ár síðan hún sýndi síðast á Dalvík. Þema málverkanna eru útsaumsmunstur af íslenska kven- þjóðbúningnum en í meðförum listakonunnar öðlast munstrin sitt eigið líf. Þau ýmist standa kyrrlát eða flögra um á myndfletinum. Frelsisþráin kemur einnig við sögu; löngunin til að slíta sig úr viðjum vanans.

Guðbjörg er fædd á Akureyri árið 1957 og útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982, grafíkdeild. Hún er félagi í SÍM, Félaginu Íslensk grafík og Myndlistarfélaginu. Fyrstu einkasýninguna hélt hún á Akureyri fyrir 31 ári.

Sýningin í Bergi stendur til 2.október og eru allir velkomnir.

Málverk


Victor Ocares opnar sýningu í Deiglunni á Akureyri

Skrifað 02. september 2014 klukkan 12:27 | | Menning, Sýningar |

Hotel TerminusLaugardaginn 6. september kl. 15 verður opnuð í Deiglunni á Akureyri sýning Victors Ocares, Hotel Terminus. Á sýningunni leikur hann sér að hugtökum á borð við óvissa og þekking og veltir fyrir sér hvort mörkin þar á milli séu í rauninni jafn skýr og af er látið.

Victor Ocares útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2013. Listsköpun hans er lituð dulhyggju sem leitar meðal annars fanga í heimspeki og vísindum. Á sýningunni notar Victor margvíslega miðla, eins og tónverk, skúlptúra og myndverk.

Sýningin stendur til 5. október og er opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.


Ljótu hálfvitarnir á Græna hattinum 5. og 6. september

Skrifað 02. september 2014 klukkan 11:15 | | Menning, Tónlist |

graenihatturinnSíðasta heimsókn Ljótu hálfvitanna á Græna hattinn á Akureyri á árinu verður núna um helgina. Þar heldur hljómsveitin söngskemmtun að sínum hætti föstudags- og laugardagskvöld, 5. og 6. september. Hálfvitar hefja upp raust sína kl. 22 bæði kvöldin, en húsið verður opnað klukkustund fyrr.

Uppselt er í forsölu á laugardagstónleikana, en einhverjir miðar verða seldir við innganginn. Þeir sem vilja tryggja sér aðgang að þessum menningarviðburði á föstudagskvöldið geta snúið sér til Eymundssonar í Hafnarstræti á Akureyri, eða til netmiðasölunnar miði.is.

Hálfvitar munu spila nokkrum sinnum á næstu vikum, m.a. í Reykjavík og í Skagafirði, en leggjast síðan í dvala fram yfir áramót.


Arna og Hymnodia

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 16:00 | | Menning, Sýningar |

Arna1Á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst, kl. 15 opnar í Listasafninu á Akureyri sýning Örnu Valsdóttur Staðreynd – Local Fact. Á sýningunni gefur að líta mörg eldri myndbandsverka Örnu ásamt nýju verki sem sérstaklega var unnið af þessu tilefni.

Á opnuninni flytur kammerkórinn Hymnodia gjörning og listamannaspjall verður með Örnu kl. 20. Listasafnið verður opið til kl. 22 vegna Akureyrarvöku.

Í tilefni sýningarinnar kemur út vönduð sýningarskrá hönnuð af Sigríði Snjólaugu Vernharðsdóttur með texta á íslensku og ensku eftir Dr. Hlyn Helgason: „Hlutverk raddarinnar í Staðreyndum 1–4 er sérstakt og áberandi. Það er persónulegt og tengist Örnu sjálfri. Það er hennar rödd sem ómar í sýningarrýminu. Ómurinn er hennar leið til að skrá rýmið og tileinka sér það. Eins og fugl sem helgar sér svæði með kvaki sínu gerir Arna rýmið að sínu með því að raula í því. Í sýningarsalnum ómar lag sem listakonan velur út frá tengingum við liðna viðburði og upplifun sína af svæðinu.“

Sýningin stendur til 12. október og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. 
Leiðsögn um sýningarnar í Listasafninu / Ketilhúsinu er alla fimmtudaga kl. 12. Aðgangur er ókeypis.

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Syngdu mig heim

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 12:00 | | Menning, Tónlist |

Söngskemmtun í MA í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum

Jon fra LjarskogumÁ þessu ári eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns frá Ljárskógum, skáldsins og söngvarans þjóðkunna. Í tilefni þess verður haldin vegleg söngskemmtun á Sal Menntaskólans á Akureyri á Akureyrarvöku laugardaginn 30. ágúst kl. 18:00.

Að tónleikunum stendur einvala lið tónlistarmanna sem flytur mörg þekktustu söngljóð skáldsins, þar á meðal nokkur lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta skipti í 70 ár. Atriðin eru af ýmsum toga, einsöngur, dúettar, kvartett og kór en meðal flytjenda má nefna nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins.

Ljarskogar 1Þetta er í þriðja sinn sem þessi söngdagskrá er flutt en hún var fyrst flutt á hátíðartónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ 26. mars síðastliðinn. Þar ríkti einstök stemmning og var troðfullt út úr dyrum en áætlað er að tæplega þúsund manns hafi sótt skemtunina. Morgunblaðið flutti fregnir af tónleikunum nokkru síðar og sagði þá bæði „glæsilega“ og „vel heppnaða í alla staði“. Í blaði Morgunblaðsins segir jafnframt: „Var þétt setið á hverjum bekk og komust mun færri að en vildu.“

Jón frá Ljárskógum fæddist 28. mars 1914 og var einn vinsælasti tónlistarmaður landsins á sinni tíð. Strax um tvítugt söng hann sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum sem með réttu mætti kalla fyrstu dægurstjörnur íslenskrar tónlistarsögu, en þeir störfuðu  á árunum 1932-1942 og nutu einstakrar hylli landsmanna. Auk þess að syngja með kvartettinum gerði Jón marga söngtexta sem urðu geysivinsælir, en meðal þekktra söngljóða hans má nefna Sestu hérna hjá mér, Húmar að kveldi, Ó, Súsanna og Blærinn í laufi. Jón lést aðeins 31 árs úr berklum en þrátt fyrir stutta ævi liggja eftir hann tvær frumortar ljóðabækur og veglegt söngtextahefti. Þá hefur söngur hans og M.A.-kvartettsins hljómaðí útvarpinu síðustu 70 árin við feikna vinsældir.

Með söngskemmtuninni á laugardaginn gefst mönnum nú einstakt tækifæri að heyra lög Jóns frá Ljárskógum og M.A.-kvartettsins sungin á sama stað og ævintýrið hófst fyrir 82 árum.

LjarskogarFlytjendur á tónleikunum eru: Unnur Birna Björnsdóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Helga Möller, Björn Bjarnsteinsson, Guðmundur Davíðsson, Magnús Pétursson, Reynir Bergmann Pálsson og Sigurður Helgi Oddsson.

Tónleikarnir hefjast sem fyrr segir kl. 18:00 á Sal Menntaskólans á Akureyri og er gengið inn um anddyri Gamla skóla. Aðgangseyrir er kr. 2000 og verður engin posi á staðnum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.


Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur nýtt starfsár

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 10:10 | | Menning, Tónlist |
Verðlaunaafhendingin fer fram í Hofi

Verðlaunaafhendingin fer fram í Hofi

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands  kynnir fjölbreytt og leiftrandi tónleikaár 2014-2015 þar sem hlúð er að sígildri tónlist um leið og spennandi nýjungar eru í boði að sögn Brynju Harðardóttur, framkvæmdastýru SN.

Tónleikaárið hefst af krafti á Akureyrarvöku um helgina þegar SN gefur gestum sínum kost á að SYNGJA MEÐ og skapa „ógleymanlega tónleika“ eins og Brynja orðar það með listafólkinu Ragnheiði Gröndal, Hjalta og Láru og Óskari Péturssyni.

Í byrjun október hyllir SN tvo mestu meistara tónlistarsögunnar Mozart og Haydn undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Það er óhætt er að lofa glæslegum tónleikum þar sem einleikararnir Ella Vala Ármansdóttir og Helgi Þ. Svavarson koma fram.“

Í lok sama mánaðar verður svo skipt yfir í kammertónleika með blóðhita og tangó.

Laugardaginn fyrir fyrsta sunnudag í aðventu gengur hljómsveitin Árstíðir til liðs við SN. Flutt verða jólalög sem allir þekkja ásamt eldri og nýrri lögum Árstíða m.a. af nýjustu breiðskífu þeirra. Margir þekkja hljómsveitina vegna myndbands sem birt var á netinu þegar hún flutti án undirleiks á þýskri lestarstöð „Heyr himna smiður“ og hlaut heimsathygli fyrir.

Í janúar kemur blásarasveitin Hexogon fram á kammertónleikum og verður á rómantískum nótum.

Febrúar verður svo kröftugur og dramatískur  þegar SN hyllir Beethoven og Brahms með einleikaranum Aladár Rácz.  

Í mars tekur SN á móti Sinfóníuhljómsveit Íslands og einni skærustu stjörnu Sibeliusarakademíunnar í Finnlandi  Önnu Mariu Helsing sem stjórnar.

Brynja segir svo að SN muni skarta sínu fegursta að venju á skírdag og flytji verk eins og Eldfuglinn eftir Stravinsky.

Tónleikaaárinu  lýkur á rómantískum nótum þar sem  skjótt skiptast á veður í lofti og með hinum sígildu verkum Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi og Árstíðirnar fjórar í Buenos Aires eftir Piazolla, einleikari er Greta Guðnadóttir.

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Norðlenskt sveitapönk á útitónleikum við Akureyri Backpackers

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 12:09 | | Menning, Tónlist |
Helgi og hljóðfæraleikararnir, ljósmyndari: Daníel Starrason

Helgi og hljóðfæraleikararnir, ljósmyndari: Daníel Starrason

Hljómsveitirnar Heflarnir, Helgi og hljóðfæraleikararnir og Buxnaskjónar munu koma fram á útitónleikum við veitinga- og gististaðinn Akureyri Backpackers næstkomandi föstudagskvöld (29. ágúst). Tónleikarnir eru haldnir í portinu milli Græna hattsins og Akureyri Backpackers og hefjast kl. 20 og standa til 22. Þeir eru haldnir í tilefni af Akureyrarvöku, sem er sett sama kvöld.

Komið fagnandi og njótið norðlenskrar menningar í friðelskandi umhverfi.


AKUREYRARVAKA Í HOFI

Skrifað 27. ágúst 2014 klukkan 15:00 | | Atburðir, Menning |

Hof i myrkriÞað styttist í Akureyrarvöku og að venju verður heilmikið um að vera í Hofi. Eins og áður er lögð áhersla á að öll fjölskyldan geti komið saman í Hof og notið fjölbreyttra viðburða sem í mörgum tilfellum kostar ekkert inn á. Á dagskránni eru til að mynda vísindatilraunir fyrir börn, tónleikar og tískusýningar. Gestum Hofs gefst kostur á að taka virkan þátt – til dæmis með því spóka sig um á íslenskum búningi eða syngja hátt og snjallt í Hamraborg. Það eru nefnilega ekki bara þekktir listamenn sem fá að hefja upp raust sína í Hofi um helgina.

Hvanndals verða með

Hvanndals verða með

SÖNGUR OG GLEÐI Í HAMRABORG

Búast má við einstakri stemningu í Hamraborg á föstudagskvöld þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands blæs til söngveislu með tónleikunum Syngdu með. Ragnheiður Gröndal, Óskar Pétursson og Hjalti og Lára koma fram á tónleikunum og gestir í salnum eru hvattir til þess að syngja með, hver með sínu nefi. Á efnisskránni eru íslensk lög sem allir þekkja. Tónleikarnir hefjast klukkan 19:30 og hægt er að kaupa miða í miðasölu Hofs og á www.menningarhus.is.

Á laugardagskvöld er svo komið að annari söngveislu í Hamraborg – með öllu óvanari söngvurum. Þá býður Hof, í samstarfi við Íslandsbanka, Akureyringum og gestum þeirra  á tónleika þar sem Hvanndalsbræður halda uppi stuði og fá til sín fjölda gestasöngvara sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa lítið sem ekkert sungið opinberlega áður. Gestalistinn kemur á óvart en meðal þeirra sem hefja upp raust sína eru skólameistari, handboltamaður, sjónvarpskona og einkaþjálfari. Kynnir á tónleikunum er presturinn og Ljóti hálfvitinn, Oddur Bjarni Þorkelsson. Tónleikarnir hefjast kl. 23:30 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir. Í fyrra komust færri að en vildu svo það borgar sig að mæta tímanlega en tónleikunum verður einnig varpað á tjald í Hömrum.

Ævar visindamaður verður á staðnum

Ævar visindamaður verður á staðnum

Í DEN OG Í DAG

Dagskrá Hofs á Akureyrarvöku einskorðast ekki við tónlistarviðburði. Á laugardaginn verður Hörður Geirsson, safnvörður í Minjasafninu á Akureyri, með leiðsögn um sýninguna Sjónarhorn í Hamragili en þar eru til sýnis gamlar ljósmyndir frá Akureyri. Hörður segir gestum skemmtilegar og fróðlegar sögur tengdar myndunum kl. 13:30 og aftur kl. 15:00.

Ekki verður sagt alveg skilið við gamla tímann þá. Hönnunarverslunin Kista stendur fyrir tveimur tískusýningum í Hamragili á laugardag: Tískan í den og tískan í dag. Á þeirri fyrrnefndu, sem hefst kl. 16:00 verður sýndur fatnaður frá liðnum tíma í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og Iðnaðarsafnið. Gestir eru hvattir til að mæta uppáklæddir og þetta er tilvalið tækifæri til að draga fram íslenska búninginn. Seinni tískusýningin hefst kl. 17:00 og þá er komið að því að skoða tísku dagsins í dag. Þar gefur meðal annars að líta nýja hönnun frá Kron by Kronkron, Andreu, Utanum, VíkPrjónsdótturogGlófa.

ÓKEYPIS „FLUGELDASÝNING“ FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Menningarhúsið Hof og Norðurorka hafa endurnýjað samstarfssamning sinn. Með framlagi Norðurorku gefst Hofi kostur á að bjóða upp á ýmsa opna viðburði í vetur, til að mynda Barnamorgna.

Sunnudagsmorgunninn í Hofi á Akureyrarvöku er einmitt helgaður börnum en þá er von á Ævari vísindamanni og vinkonu hans Sprengju-Kötu. Þau bjóða upp á innanhúss flugeldasýningu fyrir alla fjölskylduna þar sem gerðar verða stórkostlegar tilraunir. Eftir sýninguna munu Ævar og Kata spjalla við krakkana og Ævar kynnir bókina sína Umhverfis Ísland í 30 tilraunum. Skemmtunin fer fram í Hamraborg og hefst kl. 11:00. Aðgangur er ókeypis.

 


Menningarhátíð einfaranna

Skrifað 26. ágúst 2014 klukkan 00:32 | | Menning, Sýningar |
Furðuverur taka vel á móti gestum hátíðarinnar. Mynd: Ágúst Atla

Furðuverur taka vel á móti gestum hátíðarinnar. Mynd: Ágúst Atla

Við Súgandafjörð safnast á hverju sumri saman leikarar, tónlistarmenn og aðrir skemmtikraftar. Tilgangurinn er að rýna ítarlega í þá tegund listar sem ein persóna fremur á sviði. Suðureyri við Súgandafjörð fyllist gestum, sem sumir koma langt að og stemningin á götunum er ólýsanleg.

Bærinn breytist í risastórt leiksvið og húsin verða að leikmynd á fyrstu rökkurkvöldum sumarsins. Listamennirnir koma víða að og nokkrir norðlenskir þar á meðal, það má með sanni segja að Act-Alone, eins og hátíðin heitir sé þess virði að leggja land undir fót, berja Vestfirði augum í allri sinni dýrð og njóta sviðslista á heimsklassa, þar sem snarbrattar fjallshlíðar faðma gesti og listamenn.

Akureyri vikublað 21. ágúst 2014

Meðfylgjandi myndir af hátíðinni Ágúst Atlason og Völundur Jónsson fyrr í mánuðinum.

Egill Ólafsson hélt áhorfendumsínum dolföllnum í töfrandi yfirferð á sínum eigin ferli. Mynd Völundur

Egill Ólafsson hélt áhorfendum sínum dolföllnum í töfrandi yfirferð á sínum eigin ferli. Mynd Völundur

Eiríkur Örn Norðdahl flytur texta sína. Mynd Ágúst Atla

Eiríkur Örn Norðdahl flytur texta sína. Mynd Ágúst Atla

Furduverur

Hatidin

Hverjum er ekki sama!

Hverjum er ekki sama!

Villi naglbítur á kvöldvöku. Mynd: Ágúst Atla

Villi naglbítur á kvöldvöku. Mynd: Ágúst Atla

 

Gestir einleikjahátíðarinnar Act Alone raða sér upp við félagsheimili Súgfirðinga. Enda sjófið að byrja. Mynd: Völundur

Gestir einleikjahátíðarinnar Act Alone raða sér upp við félagsheimili Súgfirðinga. Enda sjófið að byrja. Mynd: Völundur