Fréttir

Heyrst hefur

Skrifað 30. ágúst 2014 klukkan 19:48 | | Fréttir |

Heyrst_hefurPresturinn fékk ekki pening

Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu um síðustu helgi. Hún hljóp tíu kílómetra og var að vonum ánægð en Arna hefur fengið brauð á höfuðborgarsvæðinu eftir margra ára dvöl sem prestur í Glerárkirkju á Akureyri. Það vakti þó athygli fb-vina Örnu að fjöldi þeirra sem hlupu virðist hafa verið meiri en svo að allir fengju verðlaunapening sem tóku þátt. Þannig skrifaði Arna Ýrr á fb-síðu sína að hún hefði ekki fengið neinn pening, því að þeir hafi verið búnir. Engu breytir það þó um glæsilega frammistöðu.

Breytingar í fjölmiðlaheiminum

Heyrst hefur að vænta megi nokkurra breytinga í fjölmiðlaheiminum á Akureyri innan tíðar. Sjónvarpsstöðin N4 hefur verið til sölu um skeið eftir að brautryðjandinn og eigandinn Þorvaldur Jónsson féll frá, langt um aldur fram. Hefur heyrst að ýmsir kaupendur hafi spurst fyrir og sýnt áhuga en ekkert orðið úr.

Á sama tíma horfir í að skipt verði um mann í brúnni á starfstöð Ríkisútvarspins á Akureyri. Auglýst hefur verið staða nýs svæðisstjóra sem beri ábyrgð á öllu efni utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem m.a. segir að æskilegt sé að umsækjendur hafi framhaldsháskólamenntun. Staða eins fréttamanns á Akureyri er einnig laus eftir að Þórgunnur Oddsdóttir hætti og flutti sig yfir í Menningarhúsið Hof. Segir í auglýsingu að skilyrði sé að umsækjendur hafi lokið háskólamenntun sem nýtist í starfinu.

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Sigling á siglingu

Skrifað 30. ágúst 2014 klukkan 15:42 | | Fréttir |
Mynd: Völundur

Mynd: Völundur

Listaverkið Sigling eftir Jón Gunnar Árnason sem stóð á horni Glerárgötu og Kaupangsstræti hefur verið flutt austur fyrir nýju gangbrautina með Drottningarbraut. Þar mun listaverkið framvegis standa á lítilli eyju eða stalli, vegfarendum til yndisauka.


Gróska í hjólreiðum

Skrifað 30. ágúst 2014 klukkan 09:00 | | Fréttir, Íþróttir |

 

Lagt af staðUm síðustu helgi stóð Hjólreiðafélag Akureyrar fyrir Akureyrarmóti í götuhjólreiðum. Hjólaður var litli Eyjafjarðarhringurinn réttsælis, alls um 26 kílómetrar. Alls voru 25 keppendur skráðir til leiks og keppt var í tveimur flokkum þ.e. götuhjólum og fjallahjólum. Nánar var fjallað um mótið sl. mánudag á akureyri.net  þar sem finna má helstu úrslit og tíma í mótinu.

Akureyrarmeistari karla í götuhjólaflokki varð Orri Einarsson og í götuhjólaflokki kvenna varð Rachael Lorna Johnstone hlutskörpust. Í flokki karla á fjallahjólum varð Jón M. Ragnarsson hlutskarpastur og Í flokki kvenna varð Arndís Eggerz Sigurðardóttir hlutskörpust.

Vilberg Helgason hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar segir markmið Hjólafélagsins vera að stuðla að auknum hjólreiðum, æfingum og keppnum auk þess að vera í hagmunagæslu fyrir hjólreiðafólk á svæðinu. Vilberg segir að um miðjan júlí hafi félagið haldið hjólahelgi sem samanstóð af 3 hjólreiðamótum á einni helgi þar sem um 60 keppendur tóku þátt í mótunum og voru flestir aðkomumenn af suðvesturhorninu. Vilberg segir að félagið sé búið að smíð brýr yfir gil og læki á leiðinni frá Fálkafelli að Gamla í þeim tilgangi að gera alvöru hjólaleið þarna í milli, þessar brýr voru svo notaðar í einu af mótunum á hjólahelginni í sumar.

Stendur félagið fyrir æfingum fyrir alla?

„Já félagið stendur fyrir hjólreiðaæfingum sem ættu að henta öllum á miðvikudögum klukkan 20:00 og sunnudögum klukkan 10:00, síðar munu svo bætast við æfingar á mánudögum. Hist er á æfingum við Hof. Á þessum æfingum eru hjólaðir 15-20 km á hraða sem ætti að henta öllum. Fyrst hjóla allir saman um stund og svo er skipt upp í 2 hópa þar sem fólk velur sér hóp sem það ætlar að hjóla í eftir getu. Fyrir þá sem vilja vera félagsmenn þá er árgjaldið 3000 krónur en það kostar ekkert að mæta á æfingar,“ sagði Vilberg Helgason  að lokum.  – PJ

Ræst í Akureyrarmótinu í götuhjólreiðum. Mynd PJ

Ræst í Akureyrarmótinu í götuhjólreiðum. Mynd PJ

Orri Einarsson Akureyrarmeistari í götuhjólreiðum kemur í mark. Mynd PJ

Orri Einarsson Akureyrarmeistari í götuhjólreiðum kemur í mark. Mynd PJ

 

Unnsteinn Jónsson t.v. varð í öðru sæti í götuhjólum og Orri Einarsson t.h. varð Akureyrarmeistari. Mynd PJ

Unnsteinn Jónsson t.v. varð í öðru sæti í götuhjólum og Orri Einarsson t.h. varð Akureyrarmeistari. Mynd PJ

Rachael Lorna Johnstone  Akureyrarmeistari í götuhjólum. María Fernanda Reyes t.v. varð önnur. Mynd: PJ

Rachael Lorna Johnstone Akureyrarmeistari í götuhjólum. María Fernanda Reyes t.v. varð önnur. Mynd: PJ


Opnun ganga gæti stórseinkað

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 17:30 | | Fréttir |
Valgeir Bergmann: Ekki sáttur.

Valgeir Bergmann: Ekki sáttur.

Eftir fljúgandi start í upphafi þar sem gangamenn í Vaðlaheiði voru langt á undan áætlun í verkinu hefur heitt vatn, bilanir, hröð starfsmannavelta og fleiri þættir orðið til þess að útilokað má telja að opnun Vaðlaheiðarganga verði í desember árið 2016 eins og áætlað var. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga ehf, segir að göngin séu nú þegar á eftir áætlun svo nemi nokkrum mánuðum. Ljóst sé að í fyrsta lagið vorið 2017 verði verkinu lokið. „Ég myndi segja að markmiðið núna væri að ná að opna einhvern tíma á árinu 2017.“

Mikið er um tímafrekar bergþéttingar í göngunum eftir að heitt vatn fór að spretta fram af miklum krafti inni í heiðinni. Áætlun gerði ráð fyrir að gangagerð við austurmunnann hæfist í Fnjóskadal fyrir þremur mánuðum. Enn hefur ekkert orðið að því. Að sögn Valgeirs er það vegna þess að verktakinn taldi að ein vakt myndi duga til að sinna bæði austur- og vesturhlutanum. Fyrrgreind vandamál hafa þó komið í veg fyrir það og verktakinn hefur ekki ráðið sérstakan vinnuhóp enn til starfans austan megin.

Ekki sáttur

Valgeir segist ekki sáttur við að vinna við göngin sé ekki hafin Fnjóskadalsmegin.“Ef maður skoðar jarðfræðiskýrslur kom fram áður en framkvæmdin hófst að það væri hægt að búast við allt að 60 gráðu heitu þarna inni. En þetta mikla heita vatn þýðir að við erum alltaf að gera nýjar og nýjar áætlanir.“

Göngin að austan eiga að verða um 2 km að lengd en vesturhlutinn, Akureyrarmegin um 5,2 kílómetrar. Einn armur borsins sem fer í gegnum heiðina er nú bilaður ofan á annað sem enn hægir á verkinu. Vatnið í Vaðlaheiðargöngum hitnar eftir því sem göngin lengjast. Könnunarholur sýna að nokkrum metrum innan við núverandi borstað geta menn átt von á að koma niður á 60 gráðu heitt vatn.

Alls voru göngin sl. mánudag orðin 2.695 metrar að lengd eða 37,4% af heild. –BÞ

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Auglýst eftir geðlækni

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 14:00 | | Fréttir |

FSAAuglýst hefur verið til umsóknar 100% staða yfirlæknis í geðlækningum við geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Staðan er laus frá 1. október 2014. Vinnan felst í daglegri stjórnun og faglegri stefnumótun á legudeild geðdeildar, í samvinnu við forstöðulækni. Þjónusta verður við sjúklinga legudeildar, þátttaka í bráðaþjónustu, ennfremur samvinna við aðrar deildir sjúkrahússins og stofnanir á Norður- og Austurlandi.  Stöðunni fylgja bakvaktir í geðlækningum, þátttaka í kennslu heilbrigðisstétta, þjálfun aðstoðar- og deildarlækna auk þátttöku í rannsóknarvinnu.

Við leitum að geðlækni með víðtæka menntun og reynslu í almennum geðlækningum ásamt reynslu við stjórnun,“ segir í auglýsingu en geðþjónusta á Norðurlandi – eða skortur á henni – hefur mjög verið til umræðu undanfarið og m.a. ratað ítrekað inn í umræður á Alþingi.

Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri er eina geðdeildin utan höfuðborgarsvæðisins. Þar eru sex stöður lækna. Deildin þjónar aðallega íbúum Norður- og Austurlands 18 ára og eldri. Deildin skiptist í legudeild og dag- og göngudeild með fjölbreyttum verkefnum. Samvinna er við aðrar sjúkrahússdeildir, heilsugæslustöðvar, félagsþjónustu sveitarfélaga,  geðsvið Landspítalans og stofnanir SÁÁ fyrir fíknisjúklinga.

 

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Guido málar vegg í miðbænum á Akureyri

Skrifað 29. ágúst 2014 klukkan 10:57 | | Fréttir |

VeggmalunÁstralski listamaðurinn Guido van Helten hefur nú hafist handa við að mála nýja mynd á norðurvegg Amaróhússins í göngugötunni í miðbæ Akureyrar í tengslum við Akureyrarvöku sem haldin verður um helgina. Guido er einn færasti vegglistarmaður heims. Hann hefur gert vegglistaverk um víða veröld og má þar nefna stór verk í London, Melbourne Ástralíu, Dublin og Reykjavík.

Listamaðurinn vinnur raunsæismyndir út frá sögulegum ljósmyndum. Hann kom til Akureyrar síðastliðinn þriðjudag og tók fyrsta daginn í að velja mynd á Minjasafninu.

Hægt er að fylgjast með Guido að störfum í miðbænum í beinni útsendingu í boði N4 Sjónvarps.

Veggmalun 1


Tónlistarveiðiferðir skila alltaf einhverjum afla

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 23:40 | | Fréttir |
Atla Örvarssyni hefur gengið allt í haginn sem tónskáldi síðustu ár. Hann  segir að tónlistin hans búi yfir einhverjum blæ sem aðgreini tónlist hans frá flestum tónskáldum í Hollywood. Kannski megi rekja muninn til upprunans á Akureyri.

Atla Örvarssyni hefur gengið allt í haginn sem tónskáldi síðustu ár. Hann segir að tónlistin hans búi yfir einhverjum blæ sem aðgreini tónlist hans frá flestum tónskáldum í Hollywood. Kannski megi rekja muninn til upprunans á Akureyri.

Tökur á kvikmyndinni Hrútum fóru fram í Bárðardal í síðustu viku. Leitað var til Atla Örvarssonar, tónskálds í Los Angeles, um samningu kvikmyndatónlistar við myndina. Verður þetta í fyrsta skipti sem Atli gerir tónlist fyrir íslenska bíómynd. Hann rekur rætur sínar í Bárðardalinn og verkefnið er því ekki bara faglegt heldur einnig persónulegt. Akureyri Vikublað ræddi við Atla Örvarsson, tónskáldið í Hollywood, á akureyrksri grundu.

Myndin Hrútar er m.a. tekin upp á Mýri þar sem móðir mín ólst upp og á Lundarbrekku sem ég á hlut í,“ segir Atli þá nýkominn heim úr Lundarbrekkukirkju þar sem hann notaði harmonikku föður síns, Örvars Kristjánssonar heitins, m.a. við smíði kvikmyndatónlistarinnar. Þar fóru fram fyrstu upptökur á kvikmyndatónlistinni. „Langafi minn var einmitt organisti í þessari kirkju,“ segir Atli.

Torrek sló í gegn

Atli hefur ekki setið auðum höndum í fríinu heima á Íslandi, því hann kom líka um helgina fram á þjóðlagahátíð á Græna hattinum ásamt hljómsveitinni Torrek. Þar lék sveitin írsk og íslensk þjóðlög með elektrónísku ívafi. Flutningurinn vakti mikla athygli og heyrðust gestir ræða um einhvern nýjan tón. Frammistaða Þórhildar Örvarsdóttur, systur Atla í hljómsveitinni, vakti mikla athygli, bæði fyrir túlkun, næmleika, framkomu og  tækni. Þá komu írskir bræður í hljómsveitinni firnasterkir inn með blæstri og fiðluleik. Skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri, Hjörleifur Örn Jónsson, átti einnig magnaða innákomu sem slagverksleikari og um frammistöðu Atla er óþarft að fjölyrða.

Mamman engu lík

Ferill Atla er furðulangur og glæsilegur miðað við að hann er enn ungur maður. Hann er ekki óvanur að búa til og flytja tónlist með systkinum sínum. Atli og Karl Örvarsson gerðu garðinn frægan með Stuðkompaníinu í eina tíð. Vakti endurkoma bandsins mikla athygli um verslunarmannahelgina í fyrrasumar. Þá er Grétar Örvarsson sem spilar með Stjórninni bróðir Hildu, Atla og Karls. Fleiri mætti nefna. Þáttur móður Atla, Svövu Karlsdóttur, er ríkur í tónlistaruppeldi systkinanna. Orðaði Þórhildur Örvarsdóttir þátt móðurinnar í tónlistaruppeldinu þannig í viðtali við Akureyri Vikublað fyrir nokkru:

Og fyrst þú minnist á mömmu þá á hún, þegar öllu er á botninn hvolft, svo stóran hlut í þessu öllu. Ég held að flestir geti séð að það þarf einstaka manneskju með mikla ástríðu fyrir tónlist og listum almennt til að vera einstæð fimm barna móðir á Akureyri og ala upp hópinn til að verða listamenn. Hún er engri lík.

Íslenska jöklatempóið

En hvers konar hugmynd er þessi Torrek sveit?

Í grunninn erum við að taka annars vegar írska þjóðlagahefð og hins vegar íslenska þjóðlagahefð, blanda þessu tvennu saman. Írski arfurinn er svona snör stef, endurtekin, línur sem eru oft stuttar en okkar melódíur eru rosalega langar og hægar, svona jöklatempó á þeim. Það er gaman að blanda þessu tvennu saman, finna leiðir til að þetta fléttist í einhverju formi. Við erum t.d. að taka Bíbí og blaka með írskum köflum, ég held við eigum öll sameiginlegt að langa til að finna út eitthvað nýtt, gera eitthvað nýtt.

Geta má þess að Torrek stefnir að útgáfu geisladisks.

Frakki benti Atla á Ísland

Víkur þá talinu aftur að nýju íslensku kvikmyndinni, Hrútum. Sem dæmi um fjölþjóðleika og hnattvæðingu má nefna að franskur umboðsmaður Atla Örvarssonar í Evrópu kom honum í kynni við framleiðendur íslensku myndarinnar. Segist Atli hafa hug á að gera tónlist við fleiri evrópskar myndir. Um vinnuna sem hann hefur þegar unnið segir hann: „Myndin er tekin upp í Bárðardal og ég fékk þessa hugmynd að fara bara í krkjuna á Lundarbrekku með harmonikkuna mína, sem var harmonikkan hans pabba. Svo er orgel í kirkjunni þannig að ég settist niður og improviseraði, þar varð til ákveðinn grunnur“.

Að byrja á öfugum enda

Að sumu leyti er þetta svipað því sem ég gerði þegar ég kynntist írsku strákunum sem nú spila með okkur Hildu í Torrek. Þá fór ég til Skotlands eftir að ég hafði verið beðinn um að gera tónlist við myndina Eagle. Við tókum upp fullt af djammsessjónum og svo fór ég með efnið til Íslands og út til Los Angeles þar sem ég bý og byrjaði að vinna út frá þeim hugmyndum. Þetta er í raun öfugt ferli miðað við það sem venjulega gerist. Yfirleitt semur maður laglínu, fær eitthvað og tekur svo upp en þessi öfuga leið eiginlega heppnaðist mjög vel, það er eitthvað í því að fara að sjálfri uppsprettunni og finna sér tíma til að verða fyrir áhrifum þar.“

Djamm í kirkju

Atli segir að Hrútar gæti gerst hvar sem er en þar sem búið sé að skrifa handritið þannig að kennileiti í Bárðardal séu hluti af sögunni hafi honum fundist viðeigandi að vinna þetta svona. „Heimatökin voru hæg af því að við erum ættuð úr dalnum. Það lá beinast við að djamma í Lundabrekkukirkju og reyndist rosa gaman! Svona tónlistaveiðiferðir skila alltaf einhverjum afla.“

Merktur upprunanum

Við Atli ræðum muninn á írskri og íslenskri þjóðlagahefð. Ég spyr hann hvort þjóðararfurinn blundi enn í æðum hans en Atli hefur árum saman búið í Los Angeles og á bandaríska konu, Önnu.

Já, kannski blundar þessi arfur alltaf í manni. Kannski er það óumflýjanlegt, í rauninni, að hann lifi. Sem krakki var ég á kóræfingum með mömmu, kirkjukórsæfingum með kirkjukór Lögmannshlíðar. Það situr enn í mér. Það sem gefur mér sérstöðu í vinnunni vestanhafs er einhvers konar blær sem hefur skapast vegna þess að ég er héðan. Kannski má segja að ég sé meira svona núna að skoða þennan þjóðararf með stækkunargleri, meir en ég hef gert áður. En þessi arfur hefur eflaust alltaf verið hluti af mínum verkum án þess að ég hafi spáð í það. Núna er ég hins vegar farinn að rannsaka þennan arf meir en ég gerði.

Hið óendanlega andrými

Myndirðu lýsa þessum blæ sem þú segir að fylgi hér héðan, sem rómantískum, kraftmiklum, melankólískum eða hvaða orð myndirðu sjálfur reyna að velja til að lýsa þessum sérstaka blæ sem aðgreinir þig með einhverjum hætti frá öðrum kvikmyndatónskáldum í Los Angeles?

Ég veit það ekki, ég hef mikið velt þessu fyrir mér. Ég held sko að íslensk tónlist hafi einhver samkenni, það er einhvers konar sameiginlegur blær eða sérstaða sem fylgir henni að jafnaði. Ég held þetta tengist öllu plássinu, öllu rýminu. Ef þú lítur út um gluggann þá sérðu allt þetta íslenska pláss. Það er svo mikið andrými hérna. Hlutirnir gerast hægt.“

Sem gæti skýrt muninn á íslenskri og írskri þjóðlagahefð, sem við ræddum áðan, þú talaðir um hin snöru írsku stef en að íslensk tónlist væri hægari...

Já, einmitt. Og það er einhver ára yfir íslenskri tónlist, ég myndi á ensku kalla hana „openness“. Íslensk tónlist er opin. En það er álíka erfitt að reyna að setja svona pælingar um tónlist í orð eins og að dansa til að reyna að lýsa arktitektúr.  En þú finnur þetta sjálfur, við Íslendingar erum ekki feimin við að taka okkar tíma í að leyfa hlutunum að þróast. Það sést á tónlistinni. Kannski vegna skortsins á síbyljunni.

Svo það líka, að hafa ekki alist upp með mikið sjónvarp í kringum sig, það hefur hjálpað mér, held ég. Þá er minna áreiti og meira pláss.“

Með hljómsveitinni Torrek, síðastliðið laugardagskvöld á Græna Hattinum. Björn Jónsson tók myndina.

Með hljómsveitinni Torrek, síðastliðið laugardagskvöld á Græna Hattinum. Björn Jónsson tók myndina.

Gott að blanda öllum saman

Þú talar um að hér á landi sé minna áreiti og meira pláss en í Hollywood og skal engan undra. Er kyrrðin og plássið hér í norðrinu e.t.v. ein ástæða þess að þið fjölskyldan hafið verið nokkuð iðin við að koma til Akureyrar á sumrum og dveljið hér töluvert? Viltu að börnin þín fái að upplifa hvernig sé að hafa allt þetta pláss í kring – til mótvægis við aðstæðurnar í Bandaríkjunum?

Já, það er örugglega ein ástæðan, stór hluti af henni. Við mótumst af öllu umhverfi. Að fara með börnin í Bárðardal og leyfa þeim að leika sér í sveitinni er allt önnur upplifun en að leyfa þeim að leika sér í borginni. Ég held það sé gott að blanda öllu saman, en það eru rosa verðmæti fólgin í því sem við höfum hér, rosa verðmæti fólgin í að hafa allt þetta pláss. Ef ég dvel hér í segjum tvo mánuði og sný aftur til LA get ég átt von á að upplifa það sem dálítið yfirþyrmandi hvað þar er margt fólk, of margir bílar og hreinlega bara of mikið að gerast, of mikið áreiti. Í því ljósi finnst mér mikilvægt að börnin mín finni þann frið sem hér er.“

Lítt hrifinn af álverunum

Mér dettur í hug svona í lokin, því listamenn eru jú viðurkenndir álitsgjafar í ýmsum samfélagsmálum, að spyrja þig hvað þér finnist um þann mikla fjölda erlendra ferðamanna sem er farinn að leggja leið sína hingað til lands. Upplifirðu einhverja röskun á því sem þú hefur rætt, kyrrðina, tímann, hið opna og eyðilega, allt plássið og kyrrðina? Sérðu þessa þróun fyrir þér með einhverjum ákveðnum formerkjum í tengslum við vaxandi fjölda ferðamanna?

Ég held þessi aukna sókn ferðamanna sé mjög jákvæð, svo fremi sem eitthvað af tekjunum sé notað til að búa til infrastrúktúr, þannig að landið verði sjálfbært. Það má ekki búa til stöðu sem reynist skemmandi afl, það má ekki gerast. Maður sér á ferð um landið að það er ekki allt í okkar náttúru sem þolir mikinn ágang en ég held að það sé jákvætt fyrir okkar menningu, að fá fólk hingað. Mér finnst miklu sniðugra að selja fólki aðgang að Gullfossi, Geysi eða Mývatni ef það er gert skynsamlega en að selja risavöxnum fjölþjóðafyrirtækjum rafmagn á afslætti til að menga umhverfið okkar með framleiðslu áls. Mér finnst þar ekki líku saman að jafna.

Þú meinar þá e.t.v. að við ættum sem þjóð að taka fleiri mínútur í að ræða afleiðingar stóriðjustefnurnar en að einblína á að stíga vanti við náttúruperlur? Eða a.m.k. að hvort tveggja fái inni í umræðunni?

Já, ég held það. Við verðum að passa okkur á að falla ekki í þá gryfju að ætla að reyna að græða of mikla peninga á of skömmum tíma án þess að kosta því til sem þarf að kosta til – svo bitni um síðir á sjálfbærni. Ef ferðaþjónustan á að verða höfuðgrein í íslensku efnahagslífi þarf að setja pening í að byggja þessa þjónustu upp.“

Viðtal: Björn Þorláksson:

Myndir: Völundur Jónsson/Björn Jónsson

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


LA mun auglýsa eftir nýjum stjóra

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 21:30 | | Fréttir |
Ragnheiður Skúladóttir: Liggur undir feldi.

Ragnheiður Skúladóttir: Liggur undir feldi.

Ragnheiður Skúladóttir, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, hefur ekki gert það upp við sig hvort hún muni sækja um starf leikhússtjóra ef staða nýs leikhússtjóra verði auglýst. Ragnheiður var ráðin til tveggja ára árið 2012 en ráðningartími hennar er útrunninn.

Soffía Gísladóttir, formaður leikhúsráðs Leikfélags Akureyrar segir að auglýst verði eftir nýjum leikhússtjóra sem muni taka til starfa 1. janúar nk.

LA stigurArnheiður Jóhannsdóttir, fulltrúi LA í nýstofnuðu menningarfélagi sem er regnhlíf yfir rekstur Hofs, SN og LA segir:  „Undirbúningur fyrir ráðningu leikhússtjóra og annarra starfsmanna til Menningarfélags Akureyrar stendur yfir og stendur til að auglýsa störfin á næstunni. Við getum gefið betri upplýsingar varðandi verkefnið og framgang þess nú í byrjun september.“

„Ég hef ekki gert upp hug minn hvað það varðar,“ segir Ragnheiður, spurð hvort hún muni sækja um stöðu leikhússtjóra, verði hún auglýst.  -BÞ


Söfnunar- og minningarganga Kittýjar

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 20:01 | | Fréttir |

KittyKristbjörg Marteinsdóttir, Kittý eins og hún var jafnan kölluð, lést af völdum brjóstakrabbameins í lok árs 2009 eftir að hafa barist við sjúkdóminn í sex ár. Í meðferðarferlinu lagði hún áherslu á að láta ekki sjúkdóminn stjórna lífi sínu heldur lifa til fulls. Hún studnaði göngu og setti sér það markmið að ganga daglega undir kjörorðunum ,,eitthvað á hverjum degi“.

Ættingjar og vinir Kittýjar vilja heiðra minningu hennar og gera það í hennar anda með því að halda styrktargöngu laugardaginn 30. ágúst á Siglufirði þar sem Kittý var fædd og uppalin.  Gengið verður frá Héðinsfirði um Héðinsfjarðargöng til Siglufjarðarog að íþróttamiðstöðinni að Hóli þar sem seld verður súpa og brauð. Þeir sem vilja styttri göngu geta sameinast göngumönnum við gangamunnann Siglufjarðarmeginn og gengið að Hóli. Gangan hefst klukkan 16:00 en fríar rútuferðir verða frá Hóli klukkan 15:00 að upphafsstað göngunnar. Þarna gefst einstakt tækifæri til að fara fótbangandi um Héðinsfjarðargöng.

Allur ágóði rennur til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini í samvinnu við Göngum saman.

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Víðtæk breyting á læknaþjónustu

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 15:00 | | Fréttir |
Miklar breytingar standa yfir á heilsugæslu landsmanna. Myndin er af húsnæði HAK

Miklar breytingar standa yfir á heilsugæslu landsmanna. Myndin er af húsnæði HAK

Fyrsta október næstkomandi ætlar heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að taka upp samræmda símsvörun um allt land í heilbrigðisþjónustu. Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir á Heilsugæslustöðinni á Akureyri, staðfestir að fyrir liggi áætlun um þetta. Hann segir að mjög hafi verið mismunandi eftir landsvæðum hvaða þjónusta sé í boði utan skrifstofutíma þegar hringt er til að óska læknisaðstoðar. Í sumum dreifðum byggðum sé aðgengi að læknaþjónustu jafnvel betra en í þéttari byggð en allur gangur sé á málum og samræmt fyrirkomulag ætti að stuðla að aukinni fagmennsku.

Í fyrra var kerfinu breytt á Akureyri. Áður var hægt að ná í heilbrigðisstarfsmann innanbæjar beint í gegnum síma á læknavakt utan skrifstofutíma en 112 svarar nú milliliðalaust ef hringt er á Læknavaktina. Akureyrsk kona sem hafði samband við Akureyri Vikublað hefur lýst neikvæðri uppplifun sinni af þjónustubreytingunni, að þjónustan sé nú ópersónulegri. Jón Torfi segist ekki hafa upplifað almenn neikvæð viðbrögð vegna þessara breytinga, að í stað þess að læknir svari í síma og vitji sjúklinga heima ef þurfi, fari símtalið fyrst í gegnum 112 sem vegi og meti næstu skref „Því miður voru þessar hringingar orðnar svo margar og erindin svo umfangsmikil oft að það voru ekki tök á að læknar sinntu þeim milliliðalaust. En eðli þjónustubreytinga er að þær geta verið umdeildar.“

Samræming góð

Jón Torfi segir það óskastöðu ef hægt væri að ná af læknum allan sólarhringinn. Vandinn sé bara sá að ekki sé hægt að gera allt alls staðar. „Í gamla daga skrifuðu konur læknanna niður heimilisföng í gegnum síma og læknarnir keyrðu á milli og fóru í vitjanir. Svo fengu læknar sjálfir síma og óku um milli heimila. Smám saman varð svo mikið um símtöl að þetta kerfi gekk ekki lengur. Ég held það geti verið gott að samræma þetta alveg eins og til stendur núna.“

Ekki hagræðingaraðgerð

Samkvæmt upplýsingum blaðsins munu þeir sem svara ákalli um þjónustu, samræmt frá og með 1. október nk., hafa ekki minni menntun en hjúkrunarfræðimenntun. „Það ætti í raun að vera sama hvar þú ert á landinu, ef þú þarft aðstoð, ætti ekki að vera flókið að finna upphafsreitinn og fá leiðbeiningar um áframhaldandi aðstoð. Eins og þetta er núna er það mjög mismunandi eftir landsvæðum hvernig þjónustan er og hvaða úrlausnir er hægt að bjóða upp á,“ segir Jón Torfi.  „Þetta er ekki hagræðingaraðgerð, raunverulega fá læknar ekki borgað fyrir að svara í símann og hafa aldrei fengið. Ég held að látlaust símaaðgengi að læknum utan dagvinnutíma hafi sums staðar valdið vandræðum við að fá fólk til starfa, það hefur skapast of mikið álag þegar aðgengið er óheft,“ segir yfirlæknir HAK. -BÞ

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Meiri ógn af áli en fólki

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 12:20 | | Fréttir |

Akureyrivikublad31Atli Örvarsson, akureyrskt kvikmyndatónskáld sem býr í Hollywood, segir að Íslandi stafi meiri ógn af mengandi áliðnaði en auknum fjölda ferðamanna.
Atli hefur samið tónlist við margar stórmyndir og þáttaraðir í amerísku sjónvarpi. Hann hefur starfað á Íslandi í sumar og telur hann mikla auðlegð í kyrrðinni og öllu rýminu hér á landi. Í náttúrunni liggi sérstaða Íslands. Hið ósnortna eigi mikinn þátt í að laða erlenda ferðamenn til landsins. Atli telur að svarið við auknum ágangi ferðamanna við viðkvæmar náttúruperlur hljóti að felast í að taka hluta af tekjunum sem komi inn vegna vaxandi fjölda ferðamanna, bæta infrastrúktúrinn til að landið þoli áganginn. Hann sjái aukinn fjölda ferðamanna ekki fyrir sér sem vandamál, nær væri að Íslendingar verðu meiri tíma í umræðu um hvaða afleiðingar stóriðjustefna hér á landi hafi fyrir land og þjóð og vinni markvissar en ella gegn skammtímahugsun og ósjálfbærni.
„Mér finnst miklu sniðugra að selja fólki aðgang að Gullfossi, Geysi eða Mývatni, ef það er gert skynsamlega, en að selja risavöxnum fjölþjóðafyrirtækjum rafmagn á afslætti til að menga umhverfið okkar með framleiðslu áls. Mér finnst þar ekki líku saman að jafna,“ segir tónskáldið sem vinnur nú kvikmyndatónlist við fyrstu íslensku bíómynd sína.
Sjá bls. 12-13 í Akureyri vikublaði og svo hér á Akureyri.net i kvöld.

Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


Hugrakkur bæjarstjóri

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 08:40 | | Fréttir |
Björn Þorláksson

Björn Þorláksson

Í blaði dagsins fer annars sá hægláti bæjarstjóri á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, býsna hörðum orðum um Landsnet. Hann segir: „Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið afstöðu Landsnets í þessum jarðstrengjamálum. Það sem ég les á milli línanna í þessu svari þeirra er að Landsnet treysti á að frumvarp ráðherra um breytingar á raforkulögum og þingsályktun um jarðstrengi í jörðu verði til að hjálpa fyrirtækinu að fara sínu fram.“

Það felst nokkur pólitísk áhætta í að tala þannig. Því meira vægi hafa orð bæjarstjóra. Hann leggur sjálfan sig undir. Og sennilega er full ástæða til.

Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði við Exeter skóla, ritaði fyrir nokkrum dögum grein sem birtist á eyjan.is. Þar segir hann að fyrirhuguð lagabreyting á raforkulögum muni þýða að Landsnet fái aukið ákvörðunarvald en minna aðhald frá bæði þjóðinni allri og öðrum opinberum stofnunum. Raunar fái Landsnet hluta ákvörðunarvalds sveitarfélaga í hendurnar samkvæmt drögunum: Vitnar Ólafur í frumvarpsdrögin:

„Sveitarfélögum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri 10 ára kerfisáætlun.“

Svo skrifar doktorsneminn: „Ef þetta hefði verið raunin í Eyjafirði í dag hefði Landsnet getað hunsað óskir íbúa og sveitarfélagsins og lagt háspennulínuna beint fyrir framan Akureyrarflugvöll – því þannig var kerfisáætlunin – með tilheyrandi flugslysahættu.“

Eflaust gengur Landsneti gott til með sýn sinni og stefnu, sem stundum virðist þó snúast um að dekra mengandi stórfyrirtæki, hafa minni áhyggjur af minni fyrirtækjum og heimilum, hafa horn í síðu þeirra sem vilja jarðstrengi en dýrka loftlínur. Einn hópur manna með eitt samsafn af þröngum hagsmunum má aldrei fá svo mikil völd að hann verði nánast einráður. Gildir einu þótt Landsnet sé sannfært um að stefna þess sé rétt.

Halldór Laxness skrifar í Innansveitarkróníku: „Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

Prik fær bæjarstjórinn á Akureyri fyrir að stunda hvorki orðhengilshátt né undanbrögð þegar honum ofbýður stefna Landsnets og áhyggjur kvikna af lagabreytingum sem gætu gert völd þessa fyrirtækis miklu meiri en nokkurri þjóð er hollt. Hann fær prik fyrir að koma sér að kjarna máls sem hagsmunagæslumaður Eyjafjarðar í víðri mynd og segja það upphátt sem augljóst virðist; að Landsnet telji sig ekki lengur þurfa að ræða við sveitarfélög af því að frumvarp ráðherra um breytingar á raforkulögum og þingsályktun um jarðstrengi í jörðu verði til að hjálpa fyrirtækinu að fara sínu fram.

Með ummælum sínum veitir bæjarstjórinn á Akureyri bæði iðnaðarráðherra og Landsneti mikilvægt aðhald. Allur almenningur hér við Eyjafjörðinn ætti að fylgja því frumkvæði.

Björn Þorláksson

-Leiðari Akureyri vikublaðs 28. ágúst 2014.


Bæjarstjóri skilur ekki afstöðu Landsnets

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 07:30 | | Fréttir |
Eiríkur Björn Björgvinsson: Sýnist sem Landsnet treysti á frumvarp til að fá að fara sínu fram.

Eiríkur Björn Björgvinsson: Sýnist sem Landsnet treysti á frumvarp til að fá að fara sínu fram.

„Sveitarfélögin á svæðinu sátu undir því í sumar af hendi forstjóra Landsnets að draga lappirnar í þessu máli. Þegar við svo bregðumst við þessum ásökunum með því að ítreka fyrri óskir okkar um samstarf vegna verkefnisins þá er það allt í einu ekki tímabært. Þetta er verulega sérstakt,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri.

Sveitarfélögin Akureyrarbær og Eyjafjarðarsveit hafa móttekið bréf frá Landsneti, undirritað af Þórði forstjóra Guðmundssyni forstjóra. Í bréfinu sem sent var 8. ágúst síðastliðinn er svarað beiðni sveitarfélaganna um samráðsvettvang til að leita lausna á deilu um loftlínu eða jarðstreng við Akureyri vegna svokallaðrar Blöndulínu 3. Beiðni sveitarfélaganna um fund vegna málsins er hafnað á þeim forsendum að Landsnet bíði annars vegar stjórnvaldsákvarðana frá ríkisstjórn áður en næstu skref verði stigin auk þess sem frekari upplýsinga um jarðstrengi sé nú aflað. „Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið afstöðu Landsnets í þessum jarðstrengjamálum. Það sem ég les á milli línanna í þessu svari þeirra er að Landsnet treysti á að frumvarp ráðherra um breytingar á raforkulögum og þingsályktun um jarðstrengi í jörðu verði til að hjálpa fyrirtækinu að fara sínu fram. Það sem skiptir öllu máli er að stjórnvöld móti skýra stefnu í þessum málum og að komið verði m.a. til móts við ábendingar sveitarfélaganna í landinu,“ segir bæjarstjóri.

Samkvæmt bréfi forstjóra Landsnets er rannsóknarhópur á vegum Landsnets að vinna skoðun á annars vegar 132 kV og hins vegar 220 kV jarðstrengjum. Hins vegar hafi iðnaðarráðherra boðað að samfara frumvarpi um breytingar á raforkulögum verði lögð fram tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Best sé að bíða með frekari skref uns þeirri vinnu sé lokið. Í deilunni er tekist á um skammtímahagsmuni eða langtímahagsmuni, breiða samfélagslega sýn eða hagsmuni Landsnets og þarfir stóriðju á Íslandi á kostnað ásýndar landsins, heimila, minni fyrirtækja, auk þess sem hópur fólks telur að loftlínur kunni að hafa neikvæð áhrif á flugöryggi við Akureyrarflugvöll. -BÞ

Birtist í Akureyri vikublað 28. ágúst 2014


257 glæný grunnskólabörn

Skrifað 28. ágúst 2014 klukkan 00:41 | | Fréttir |
Brekkuskóli er stærsti grunnskóli Akureyrarbæjar en Grímseyjarskóla sá minnsti. Annar er  með 11 nemendur en hinn um 480

Brekkuskóli er stærsti grunnskóli Akureyrarbæjar en Grímseyjarskóla sá minnsti. Annar er
með 11 nemendur en hinn um 480

Samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Gíslasyni, fræðslustjóra á Akureyri, eru 257 nemendur skráðir í fyrsta bekk í haust. Fjölmennasti skólinn er Brekkuskóli með 480 nemendur en sá fámennasti Grímseyjarskóli með 11 nemendur. Heildarfjöldi nemenda í vetur innan Akureyrarkaupstaðar verður um 2.580 nemendur. Í fyrra voru nemendur 2.635 eða um 55 fleiri en á komandi hausti, sem skýrist að sögn fræðslustjóra fyrst og fremst af því að stór 10. bekkur fór út á síðasta skólaári (ríflega 300 nemendur) og um 257 nemendur koma inn í 1. bekk nú.
„Fyrsti bekkur í fyrra var nokkru fjölmennari eða með um 280 nemendur. Hafa ber í huga að það er alltaf nokkur hreyfing á nemendum á þessum tíma, þó skólar séu byrjaðir. Ekki eru allar skráningar komnar réttar inn,“ segir Gunnar Gíslason fræðslustjóri.

Meðalfjöldi í bekk um 20

Spurður um fjölda nemenda í bekkjdadeildum segir Gunnar að skólarnir fái úthlutað fjármagni til að sinna almennri kennslu, sérkennslu og annarri þjónustu sem þeim sé ætlað að sinna. Ekki sé gengið út frá ákveðinni skipan í námshópa eða bekki. „Það er verkefni stjórnar hvers skóla að gera það og gert ráð fyrir því að það sé gert með hliðsjón af faglegum forsendum á hverjum stað ásamt því að aðstæður geta haft áhrif á ákvarðanir sem þessar. Ef við hins vegar gefum okkur ákveðnar forsendur miðað við það fjármagn sem er til ráðstöfunar heilt yfir má reikna með að meðalfjöldi í námshópi sé í kringum 20 nemendur og er þá ekki tekið tillit til sérkennslu. Stundum eru fleiri nemendur í hverju rými en þá er yfirleitt meiri mönnun en sem nemur einum kennara.“

450 starfsmenn

Áætlað er að í haust séu 29.3 stöðugildi sem sinna stjórnun og ráðgjöf í skólunum, 250 stöðugildi
kennara og 104 stöðugildi í öðrum störfum. Þetta gerir 383,3 stöðugildi í grunnskólunum öllum og í
þessum stöðugildum eru 450 starfsmenn. -BÞ

Grein birtist í Akureyri vikublaði 28. ágúst 2014


Sigdældir suðaustan við Bárðarbungu

Skrifað 27. ágúst 2014 klukkan 22:58 | | Fréttir |

Mynd af Facebook síðu Almannavarna.

Mynd af Facebook síðu Almannavarna.

Vísindamenn hafa orðið varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í dag. Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga. Í fluginu sáust grunnir sigkatlar og sprungur 4 – 6 km langar við suðaustanverða Bárðarbungu. Þarna er um 400 til 600 metra þykkur ís. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna.

Nánar »