Fréttir

Lof og last vikunnar

Skrifað 21. september 2014 klukkan 09:30 | | Fréttir |

Lof og Last vikunnarLast fá þeir sem standa að útburði á Dagsránni, segir „karl af brekkunni“ í bréfi til blaðsins. „Í síðustu viku kom engin Dagskrá og á föstudag þá hringdi ég og kvartaði. Þá fékk ég þau svör að það væri til fullt af  henni í Kaupangi ég gæti bara náð í hana þar. Þetta finnst mér léleg þjónusta og hvað með þá sem auglýsa? Þeir geta varla verið ánægðir með þetta,“ segir karl af brekkunni...

Lof fá bæjaryfirvöld sem auglýstu eftir tillögum að umhverfisverkefnum á heimasíðu Akureyrar, segir kona sem hringdi í ritstjórn blaðsins. Hún segist sjálf vera mikil áhugamanneskja um bætt umhverfi og hafi sent inn tillögur um stíg meðfram Gleránni að brúnni. Nú sé búið að malbika stíg alveg niður að ósi. „Ég er svo ánægð að sjá framgang minnar hugmyndar verða að veruleika – en auðvitað getur verið að margir fleiri hafi stungið upp á þessu,“ segir konan. Að auki segist hún hafa sent inn tillögur um borð og bekki við smábátahöfnina í Bót og viti menn, nú sé það orðið. Þetta sé dæmi um fyrirtaks íbúalýðræði sem þakka megi stjórnartíð síðasta meirihluta í bænum...

Last fær Ríkisstjórn Íslands fyrir „afspyrnuslaka frammistöðu sem af er á flestum sviðum og virðist ekkert lát á þeim hörmungum“. Svo segir í bréfi karls á Eyrinni. „Fari svo fram sem horfir gætu eftirmæli hennar orðið "Mannfjandsamleg Ríkisstjórn". Raunar virðast þessir flokkar kalla fram það versta hvor öðrum og má því segja að þegar þeir ná saman þá hitti andskotinn ömmu sína,“ bætir karlinn við...

 

Lof fær Tækifæri fyrir að „skera N4 úr snörunni“ segir áhugamaður um fjölmiðla á Akureyri sem sendi blaðinu póst. „En hitt væri best að Tækifæri legði kapp á að selja hluti sína í dreifða eignaraðild, þannig að KEA, Stapi og aðrir ráðandi aðilar hér fyrir norðan séu ekki með puttana í fjölmiðlarekstri,“ bætir hann við. Þá segir karlinn umhugsunarefni að nýr formaður stjórnar KEA sé jafnframt stjórnarmaður í blaðstjórn Vikudags og sé að auki forstöðumaður fjölmiðlafræðideildarinnar við Háskólann á Akureyri. „Þarna fer e.t.v. of margt saman á einni hendi,“ segir karlinn...

 

Akureyri vikublað 18. september 2014


Fjölmenni við opnun göngu- og reiðhjólastígs við Drottningarbraut (myndir)

Skrifað 20. september 2014 klukkan 19:02 | | Fréttir |
Mynd: Palli Jóh

Mynd: Palli Jóh

Í dag var nýr göngu- og reiðhjólastígur meðfram Drottningarbrautinni formlega tekin í notkun. Talið er að rúmlega tvö hundruð manns hafi safnast saman inn við Skautahöll þar sem bæjarstjórinn hélt stutta ræðu áður en stígurinn var formlega opnaður. Það var Dagbjört Pálsdóttir formaður umhverfisráðs sem klippti á borðann. Þaðan hjólaði hersingin inn að Ráðhústorgi þar sem boðið var uppá grillaðar pylsur og drykki, myndataka fyrir börnin í bílstjóra sæti strætó, slökkviliðið mætti á staðinn og fleira skemmtilegt í tilefni dagsins en allt er þetta tengt samgönguvikunnar á Akureyri.

Það má trúlegt telja að framtak Hjólafélags Akureyrar sem stóð fyrir hjólalestum frá öllum grunnskólum bæjarins hafi vegið þungt í hve margir bæjarbúar tóku þátt og gerðu daginn jafn skemmtilegan og raunin varð á. Flott framtak hjá félögum í Hjólafélagi Akureyrar og eiga þeir þakkir skildar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag og ljósmyndari fylgdi hópnum sem lagði upp frá Glerárskóla sem svo sameinaðist hópum sem lögðu uppfrá Gilja- Síðu og Oddeyrarskóla á leið inn að Skautahöll.Myndir Palli Jóh:

 


Þá spyrjum við bara tilvonandi forstjóra

Skrifað 20. september 2014 klukkan 16:52 | | Fréttir |
Hjálmar Bogi Hafliðason

Hjálmar Bogi Hafliðason

Fyrir skömmu skipaði heilbrigðisráðherra Jón Helga Björnsson sem forstjóra nýrrar heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Síðastliðnar vikur hefur undirritaður ásamt mörgum öðrum kallað eftir röksuðningi með sameiningum heilbrigðisstofnana og svörum við ósvöruðum spurningum. Skemmst er frá því að segja að ráðherra hefur engu, já, alls engu svarað og ekkert samráð haft. Það er því borðliggjandi að nýr tilvonandi forstjóri færi rök fyrir sameiningunni og svari þeim spurningum sem ráðherra svarar ekki. Þá er vert að vekja athygli á því að Jón Helgi Björnsson, forstjóri heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, átti einmitt sæti í nefnd sem fjallaði um sameiningu heilbirgðisstofnana á Norðurlandi og ætti þess vegna að þekkja málið vel.

Tilvonandi forstjóri svari fyrir aulahátt ráðherra

Héraðsfréttablaðið Skarpur í Þingeyjarsýslum og fleiri staðarmiðlar greina frá ráðningu Jóns Helga. Þar er haft eftir Jóni Helga að ekki sé búið að fullmóta hvernig verði staðið að stjórnun á hverri og einni stofnun. Bíðum nú við, var sem sagt ekki búið að fullmóta þessa sameiningu? Jafnframt kemur fram að engar áætlanir eru til um að dregið verði úr þjónustu og ekki þurfi að laga til í rekstri nýrrar stofnunar. Til upplýsingar þá vantar um 50 milljónir í rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar á Akureyri. Hvernig á þá að mæta því? Það sem vekur sérstaka athygli í viðtali Skarps við Jón Helga er að hann segir að þessi sameining sé í raun óhjákvæmileg. Bíðum við, þá spyrjum við bara, af hverju? Jón Helgi svarar þeirri spurningu að einhverju leyti sjálfur með því að segja að þessi hugmyndafræði hafi lengi þótt skynsamleg í ráðuneyti heilbrigðismála. Hvað er svona skynsamlegt? Til að bæta gráu ofan á svart segir Jón Helgi að úr því að þessi ákvörðun hafi verið tekin, þ.e. að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi í eina, þá vindi menn sér bara í verkefnið. Maður hlýtur að spyrja sig; bíðum við, til hvers er verið að sameina allar heilbirgðisstofnanir á Norðurlandi í eina? Hvar er svarið við þessari spurningu? Ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, sýnir þvílíkan aulahátt og kemst upp með að svara ekki og færir tilvonandi forstjóra keflið sem hlýtur nú að svara fyrir þessa sameiningu?

„Yfirgengileg vanþekking“

Tekið skal fram að kannski verður þjónustan hagkvæmari, öruggari, betri og sveigjanlegri á nýrri stofnuna og rekstur traustari. Það hlýtur að vera hlutverk nýs forstjóra að svara. Hvernig ætlar hann að tryggja öruggari, betri, sveigjanlegri og hagkvæmari þjónustu umfram það sem gert er í dag? Ráðherra heilbrigðismála hefur sakað sveitarstjórnarmenn að ræða þessi mál „af alveg yfirgengilegri vanþekkingu“. Þar sem Jón Helgi hefur setið sem bæjarfulltrúi síðastliðin 8 ár í bæjarstjórn Norðurþings og gengt starfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga undanfarin ár ætti að vera auðvelt fyrir hann að svara?

Hjálmar Bogi Hafliðason

Varaþingmaðurí NA-kjördæmi

Tengd efni: Nýtur ekki meirihlutastuðnings


Nú veit ég hvernig lífið er um borð í skemmtiferðaskipi

Skrifað 20. september 2014 klukkan 15:00 | | Fréttir |

Ingvi RafnIngvi Rafn Ingvason, trommari á Akureyri, varði sumrinu með öðrum hætti en gengur og gerist, a.m.k. meðal Íslendinga. Hann vann fyrir sér sem hljóðfæraleikari í hljómsveit um borð í erlendu skemmtiferðaskipi. Akureyri Vikublað tók trommarann tali og spurði spjörunum úr út í þá reynslu.

Hvernig kom þetta til?

Ég fór til Bandaríkjanna, Los Angeles í fyrra, en þar lærði ég í skóla á sínum tíma. Ég hafði einfaldlega saknað staðarins, langaði að hitta gamla félaga og fara á fornar slóðir, þannig að ég sel bílinn minn, stekk af stað og bý í gamla hverfinu mínu í Hollywood. Þar fer ég á námskeið sem gamall stúdent og tengi mig aftur við skólann. Svo rek ég augun í auglýsingu upp á vegg þar sem segir að það vanti ýmsa hljóðfæraleikara um borð í skemmtiferðaskip. Ég set mig í samband, sendi inn „linka“ á vídeó og svo rúllaði boltinn. Ég fór í netviðtal, svo hittumst við, ég og þeir sem sáu um að ráða á þetta tiltekna skip. Ég fékk svo boð um að mæta í prufu í Los Angeles, prufan gekk vel, þeir höfðu samband og ég var ráðinn.“

Ingvi trommariÞarf ekki ýmis leyfi fyrir svona djobb? Maður hoppar ekki bara um borð í erlendu skemmtiferðaskipi og fer að spila – eða hvað?

Það þurfti að fá visa og það allt, ég fór í viðtal í bandaríska sendiráðinu hér á landi, enda skipið bandarískt og síðan fór af stað alls konar tékk, mér leið næstum eins og ég væri orðinn atvinnumaður í fótbolta! Allur líkaminn tékkaður af, út og suður, það voru lifrarpróf, eiturlyfjapróf, sjónpróf, heyrnarpróf, lungnamyndatökur, athugað með sykursýki og fleira. Ég stóðst þetta allt og segi stundum í gríni að ég hafi fengið svona Jesúvottun. Svo breyttust hlutir, ég var beðinn um að koma fyrr en til stóð þannig að ég einn daginn þurfti ég nánast án fyrirvara að stökkva upp í bíl þegar kallið kom í vor,  aka suður og beint upp í flugvél um nóttina. Flaug sem sagt frá Keflavík til Flórída og hitti þar hljómsveitina.

Varstu þá búinn að fá lista með lögum sem þú þurftir að kunna skil á?

Já, ég var búinn að vera í samstarfi við tónlistarstjórann og hafði fengið nokkur hundruð lög á lista til að æfa.“

Og hvernig reyndist hljómsveitin skipuð?

Við komum héðan og þaðan. Söngkonan var kántrýsöngkona frá Missisippi. Söngvarinn frá Seattle. Hann hafði enga formlega tónlistarmenntun en reyndist einn bestri samstarfsmaður sem ég hef unnið með. Það er gaman að segja frá því til marks um fjölbreytileika mannlífsins að hann hafði unnið fyrir sér sem pókerspilari og hafði keypt stórt hús í Las Vegas fyrir tekjur sem hann hafði af fjárhættuspili. Svo ákvað hann að athuga hvort hann gæti eitthvað sungið og komst áfram í fyrstu tilraun.

Voru þetta allt Kanar með þér í hljómsveitinni?

Nei, gítarleikarinn var frá Argentínu, Buenos Aires. Hann var mjög skemmtilegur, svona Van Halen metalgítarleikari að upplagi, einn sá nákvæmasti sem ég hef unnið með, drakk ekki, reykti ekki og hjálpaði mér alltaf að setja upp simbalana. Svo var þarna ítalskur bassaleikari,  öldungurinn í bandinu, 48 ára. Hljómborðsleikarinn var svo bandarískur en hann var jafnframt hljómsveitarstjóri.“

Og þá hafa æfingar hafist?

Jamm, þá var að æfa og æfa. Þessi kafli ævintýrisins var eiginlega ljúfasta lífið. Ég var með sérherbergi á hótelinu og borðaði alltaf á veitingahúsum. Æft 7-8 tíma á dag, við æfðum í tvo mánuði þarna í Flórída en áttum samt líka skemmtilegan frítíma. Það var magnað að fylgjast með veðrinu, það var svo síbreytilegt. Það er kannski 30 stiga hiti og logn. Svo blikar maður auga og þá æðir yfir þvílíki hitabeltisstormurinn með hellirigningu.

Svo hefjast siglingar og þið farið að spila. Hvernig gekk spilamennskan fyrir sig? Þurftirðu að læra alla tónstíla? Er svona hljómsveit óskalagahljómsveit?

Nei, ekki óskalagahljómsveit. Hljómsveitarstjórinn ræður í samvinnu við skemmtanastjóra hvað er spilað. Þetta var gaman en annars var rosaleg harka í þessu og menn látnir fara fyrir fáránlega léttvæg mistök.“

 Eins og hver?

Ég frétti af starfsmönnum sem fóru í sturtu. Þá kviknaði á reykskynjara. Þeir létu Öryggisgæsluna vita en tóku svo reykskynjarann úr sambandi. Það mátti ekki. Þá voru þeir reknir.“

Voru ekki einu sinni blásarabönd um borð í svona skipum?

Jú, en þetta hefur breyst. Um borð í þessu skipi var 31 tónlistarmaður ekki alls fyrir löngu en í sumar hafði okkur tónlistarmönnunum um borð verið fækkað niður í níu alls. Áður var gerð krafa um stórhljómsveitir. Nú hefur böndunum fækkað og blásarar eiga sérstaklega undir högg að sækja. Tónlistin er meira popp en hún var.

Þú spilaði um 3 mánuði alls um borð í þessu skipi. Hve marga frídaga fékkstu?

„Ætli við höfum ekki tekið 80 gigg á 90 dögum.“

Hvernig var þér farið að líða þegar þið rennduð prógramminu í síðustu skiptin?

Auðvitað verður maður þreyttur, maður þreytist á þessu og reyndar var ég kominn með svo mikinn leiða á aðstæðum að ég var hættur að hlusta á tónlist. En þetta var gríðarlega áhugaverð reynsla og ég sé ekki eftir þessum tíma. Svona keyrsla kallar líka á frábært form. Ég er búinn að vera í frábæru formi sem trommari síðan í sumar. Það er það sem maður saknar oft þegar maður býr hér fyrir norðan,  hér ertu kannski að spila með hljómsveit bara einu sinni í mánuði. Það er ekki nóg.

Ingvi skemmtiferdaSegðu okkur aðeins meira  um þetta skip?

„Það heitir Carnival Fascination, 70.000 tonn að stærð, svona meðalskip eins og við sjáum oft hér á Akureyri. Það tók tvær vikur að læra á það.“

Upplifðirðu menningarsjokk um borð?

Stærsta menningarsjokkið var kannski að komast að því að þegar við lögðum úr höfn kom í ljós að ég þurfti að deila klefa með ókunnugum manni, amerískum hljóðmanni. Ég er vanur að búa sjálfstætt, hef búið einn að hluta til sl. 12 ár en á 13 ára strák, Pál Veigar.

fyrir utan að ég á 13 ára strák. Það er ekkert auðvelt að afsala sér því frelsi að geta gert það sem maður vill, hvar sem maður er staddur hvenær sem er. Menn geta líka hæglega orðið upppstökkir um borð í svona skipi. Þarna er gríðarleg nánd, gestir og áhöfn alls frá 60 löndum og menningarkúlturinn gríðarlega ólíkur. Auðvitað hjálpaði mér þó við aðstæðurnar að hafa búið erlendis og þetta var mjög almennilegur klefafélagi, tillitssamur og það allt.

Var klefinn engin lúxussvíta?

Nei. Ég var á dekki 3, við þurftum að sofa í kojum, ekkert kýrauga eða neitt. Það kom svo á daginn að sólistarnir og hljómsveitarstjórinn voru með einkaklefa allan tímann.

Stéttaskipting?

Já það var þvílík stéttaskipting um borð. Frábært tími sem fór í hönd að mörgu leyti en þetta var mínus.

Hvað gerðirðu í frístundum?

Á dekki sjö var starfsmannaaðstaða og lítil sundlaug. Það var saltvatn í lauginni, sjór, en mér fannst hún fín þótt þarna kæmi sjaldnast nokkur annar. Það voru örugglega ýmsir sem hugsuðu hvers konar hálfviti ég væri að nota laugina því enginn annar virtist hafa áhuga á því! Annars var meginaðstaðan fyrir starfsmenn í stafni skipsins. Maður gat átt svona Titanic stund þar ef maður vildi, eina svæðið sem gestir máttu ekki koma á. Svo horfði maður á myndir og hlustaði á tónlist milli þess sem við spiluðum hvern einasta dag.“

Hve margir farþegar eru og hve margir í áhöfn svona skips?

900 í áhöfn og 2000 farþegar þegar mest var. Þetta er heilt þorp á siglingu.“


IngviÞú talar um dekk þrjú og dekk sjö. Hve mörg eru dekkin?

14 dekk. Ellefta dekkið er bara svítur, þar eru þeir sem eiga mesta peninginn.

Og var föst rútína í siglingunum?

Já, allar ferðirnar eru fjórar eða fimm nátta ferðir. Við lögðum upp frá Jacksonville i Florida og svo var Nassau á Bahama eyjum fastur punktur, stundum Freeport a Grand Bahamas líka.  Síðan stoppuðum við á tveimur einkaeyjum sem heita Half Moon Cay og Little Stirrup Cay. T.d. voru senur i myndinni  Pirates of the Carribbean teknar upp a Half Moon Cay.

Grand Bahamas eru nokkurs konar einkaeyjar sem enginn heimsækir nema gestir á skemmtiferðaskipum. Gestirnir eru eiginlega guðir en við starfsmenn í öðru sæti. Þegar skip stoppar og farið er í land er alveg rosaleg öryggisgæsla og miklu meira tékkað á starfsmönnum en farþegum, svo eitt dæmi sé tekið.

Eru þessar stuttu siglingar mjög dýrar?

Nei, ekki ódýrustu ferðirnar. Það er hægt að sigla túr sem farþegi fyrir 400-500 dollara með mat og gistingu, fjögurra daga túr. En auðvitað veltur það á þægindinum hve mikið svona sigling kostar.“

Meðalaldur gesta um borð?

Allskonar. Nýfædd börn og allt upp í aldraða í hjólastólum.“

Varðstu ríkur af þessu ævintýri?

Nei, þetta er ekki vel borgað en ég get þó sagt að launin fyrir svona vinnu eru betri en kennaralaun þarna ytra.“

Myndirðu gera þetta aftur?

Kannski. En þá í styttri tíma. Eins og ég segi var þetta lærdómsrík upplifun, reynsla sem ég get ekki jafnað við neitt annað. Samt hef ég spilað Í Japan, í Ameríku, á Norðurlöndunum og víða á Íslandi.“

Ingvi Rafn IngvasonVar gott að koma aftur heim í víðáttuna og fá að vera einn í heiminum eftir að hafa deilt pínulitlum klefa með ókunnugum manni?

Já. Ég hef verið mikið í sveitinni síðan ég kom heim, hef búið rétt fyrir utan Akureyri. Ég stefni að flutningi í sveitina, það er eins og draumur að hafa svona hátt til lofts og vítt til veggja eins og við höfum hérna. Náttúran er það sem skiptir svo miklu máli, víðernin. Mér finnst frábært að sækja í litina, landslagið, auðnina, kyrrðina og friðinn. Maður þarf ekkert prógramm ef þetta er í boði.“

Þegar þú gengur niður að sjávarsíðunni hérna á Akureyri og horfir út á Pollinn þar sem skemmtiferðaskip er á siglingu einmitt núna í þessum töluðu orðum, þegar viðtalið fer fram – sérðu lífið um borð þar með allt öðru hugarfari en áður en þú lést vaða og aflaðir þér þessarar reynslu?

„Já, nú veit ég hvernig lífið er um borð í skemmtiferðaskipi. Ég hef lært margt um samskipti. Ég veit að framkoma margra gesta við sttarfsmenn er oft ekki til fyrirmyndar – töluvert hrokafull oft. Auðvitað er margt gott og spennandi við svona siglingar, maður þarf hvorki að greiða mat, gistingu né annað uppihald og það allt. En það eru svona atriði líka eins og að gestirnir mega reykja yfir manni á böllum. Ég kunni því illa. Meginlærdómurinn er kannski að fólk um borð í skemmtiferðaskipi er þverskurður  af samfélaginu. Fólk flýr ekki eigin vandamál þótt það bregði sér í lúxussiglingu. Þau fylgja manni, kostir manns og gallar fylgja manni hvert sem er.“

Kannski erum við íbúar hér á Akureyri með dálítið rómantíska hugsun um lífið um borð í svona skipum?

Kannski. Ég viðurkenni a.m.k. að ég er kominn niður á jörðina. Ef út í það er farið gæti maður jafnvel fengið leið á að sofa hjá Cindy Crawford! Lífið er samspil af mörgu, mér finnst gott og gaman að breyta til og öðlast nýja reynslu. Þetta var að mörgu leyti frábær reynsla, alveg eins og það var frábær reynsla að fá að alast upp hér á Akureyri, í bænum sem fóstraði mína menningu. Menning er allt sem maðurinn gerir eins og Páll Skúlason sagði.“

Hver er þín framtíð sem tónlistarmanns núna?

Framtíðin er óskrifað blað. Ég er að leita að vinnu.

Þú þreifaði fyrir þér með þingmennsku þegar þú bauðst þig fram á lista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi fyrir þingkosningar 2013.

„Já, ég fékk ekki þingmannsstarfið. En þetta var skemmtileg reynsla, mér finnst gaman að ögra sjálfum mér.“

Kannski var ekki von til að þú fengir brautagengi til þingmennsku hjá sjöllunum, man ég það ekki rétt að þú hafir talað ákaft fyrir aðild að ESB?

Jú, sem reyndist ákveðin hindrun fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég var einn af stofnendum lenín- og marxískrar hreyfingar í MA, ég hef unnið ýmsa verkamannavinnu og aldrei verið hátekjumaður en ég er „sjálfstæður kommnúnisti“ og ég hef farið til Brussel sem verkefnastjóri og setið fundi. Það er talað um að ESB myndi ekki hlusta á okkar rödd en það er ekki rétt, ef við værum aðilar að ESB væri rödd okkar sterkari en hún er. Við höfum allt sem þarf til að búa í frábæru landi; hreint vatn, tært loft, orku og auðlindir. Hvað vantar? Almennilega hagstjórn og lægri vexti. Lausnin gæti verið ESB en því miður skiptir ekki máli hvort þeir sem stjórna séu til hægri eða vinstri.  Okkur ber ekki gæfa til að ræða þessi mál eða taka góðar ákvarðanir.  Ég var að skoða námslánin mín, svo eitt dæmi sé tekið um hagstjórnina. Ég skuldaði árið 2006, 2,6 milljónir í námslán. Nú stendur skuldin í 3,4 milljónum, samt er ég búinn að borga af þessum lánum í tæp 20 ár. Á sama tíma heyrir maður að námsmenn séu afætur á þjóðfélaginu, námslánakerfið sé svo hagstætt.“

En hvað með sjávarútvegsmálin og ESB?

Ég kaupi það ekki að allur fiskur hér yrði ryksugaður upp af ókunnu fólki. Það er ekkert annað en hræðsluáróður. Og auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að hafa sanngjarnt auðlindagjald a sjávarútveginum. Enda sýna afkomutölur í greininni að það er svigrúm til þess.

Viðtal Björn Þorláksson

Myndir Völundur Jónsson/Úr einkasafni

Viðtalið birtist fyrst í Akureyri vikublaði 18. september 2014


Sportið um helgina

Skrifað 20. september 2014 klukkan 09:30 | | Fréttir, Íþróttir |
Ævar Ingi og félagar í KA taka á móti ÍA í loka umferð 1. deildar karla í dag laugardag.

Ævar Ingi og félagar í KA taka á móti ÍA í loka umferð 1. deildar karla í dag laugardag.

Í dag, laugardag verður leikin síðasta umferðin í fyrstu deild karla. Þá á KA heimaleik gegn ÍA sem hefur þegar tryggt sér sæti í efstu deild að ári. Leikurinn fer fram á Akureyrarvelli og hefst klukkan 14:00. Þá fer einnig fram síðasta umferðin í annarri deild karla og þá tekur KF á móti Gróttu sem þegar hefur tryggt sér sæti í fyrstu deild að ári. Leikurinn fer fram á Ólafsfjarðarvelli klukkan 14:00. Á sama tíma sækir lið Dalvíkur/Reynis lið ÍR heim og fer leikurinn fram á Herzvellinum. Að lokum fara Völsungar frá Húsavík til Hornafjarðar og etja kappi við Sindra. Allir leikir laugardagsins hefjast klukkan 14:00.

Stelpurnar í KA/Þór sem leika í Olís-deildinni hefja leik á Íslandsmótinu á laugardag þegar liðið sækir Val heim í Vodafonehöllina leikurinn hefst klukkan 15:00.

Íshokkí:

Deildarkeppnin í íshokkí er hafið og mætir Skautafélag Akureyrar að venju til leiks með hörkulið. SA hefur þegar spilað þrjá leiki og eru efstir með sjö stig. Næsti leikur liðsins er í dag, laugardag og fær þá SA lið Bjarnarins í heimsókn og hefst leikurinn kl. 16:30. Strax á eftir leik SA og Bjarnarins í meistaraflokki karla (c.a. 19:30) hefst deildarkeppnin í meistaraflokki kvenna en þá spila SA Ásynjur við kvennalið Bjarnarins.

Á morgun sunnudag á Akureyri útileik gegn Haukum í Olísdeild karla í handbolta í leik sem fram fer í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði og hefst leikurinn klukkan 15:00. Klukkutíma síðar eða klukkan 16:00 sækja Þórsarar lið Vals heim í 20. umferð Pepsí-deildar karla leikurinn fram fer á Vodafonevellinum.

Kraftlyftingar: í dag og á morgun fer fram Íslandsmeistaramót unglinga í klassískum kraftlyftingum sem haldið er í aðstöðu KFA í sunnuhlíð. Keppt er í yngri flokki á laugardag og eldri hópi á sunnudag. Keppni í dag hefst klukkan 14:00.


Hjólalestir á Akureyri

Skrifað 19. september 2014 klukkan 21:21 | | Fréttir |
Mynd: Palli Jóh

Mynd: Palli Jóh

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Akureyringar hafa eignast nýja útivistarparadís sem er stígur meðfram Drottningarbraut. Það virðist sem hjólandi, hlaupandi og labbandi nýti sér þennan stíg óspart, reyndar hefur veðrið líka leikið við okkur Akureyringa undanvarnar vikur síðan hann var malbikaður.

Á morgun, laugardaginn 20. september verður þessi stígur opnaður formlega og ætlar Hjólreiðafélag Akureyrar að vera með hjólalestir frá öllum grunnskólum bæjarins að opnun á þessari útivistarperlu klukkan 12:30. Lestarstjórar verða ekki að verri endanum en Eiríkur Björgvin bæjarstjóri, Þórgnýr Dýrfjörð, Sigurvin Fíllinn, Guðríður og Andrea í Gaman saman Útinámskeið, Hilda Jana, Jón M í Joes og fleiri ætla að leiða lestirnar frá skólum bæjarins.

Miðað við þá vakningu sem hefur átt sér stað í hjólreiðum og þá staðreynd að flestir fullorðnir eiga hjól og nánast öll börn og unglingar á Akureyri ætti þetta að geta orðið fjölmennasti  hjólreiðaviðburður á Akureyri frá upphafi segir Vilberg Helgason hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar sem stendur fyrir hjólalestunum í samstarfi við Akureyrarbæ.

Við hvetjum alla til að mæta og hjóla með hjólalestunum í róglegheitunum og fylgjast með opnuninni klukkan 13:00

Dagskráin er annars svona:

12:30 Hjólreiðafélag Akureyrar leiðir hjólalestir frá grunnskólum bæjarins að nýjum göngu- og hjólreiðastíg við Drottningarbraut.

13:00 Nýr göngu- og hjólreiðastígur formlega vígður við gatnamót Miðhúsabrautar og Drottningarbrautar. Þaðan hjólað saman að Ráðhústorgi.

13:30 Dagskrá á Ráðhústorgi.

Grillaðar pylsur og drykkir í boði

Kynning á vistvænum ökutækjum og rafhjólum

Börnin fá að skreyta göturnar

Myndataka fyrir þá sem vilja, í bílstjórasæti strætó

Slökkviliðið mætir á svæðið

Svo verður hjólreiðamót fyrir krakka klukkan 13:00 á sunnudag við minjasafnið þar sem keppt verður í kringum tjörnina í hinum ýmsu aldursflokkum frá 5-16 ára

Mynd: Palli Jóh

Mynd: Palli Jóh


„Talið er að um aðkomumann sé að ræða“

Skrifað 19. september 2014 klukkan 14:35 | | Fréttir |

UtanbaejarmennMikil umræða hefur orðið manna á millum og þá ekki síst í netheimum vegna viðtals við Þórodd Bjarnason prófessor í félagsfræði um þann smáborgaraskap sumra innfæddra Akureyringa að stunda aðgreiningu milli aðfluttra og annarra íbúa í bænum. Viðtalið við Þórodd birtist í síðasta tölublaði af Akureyri Vikublaði undir fyrirsögninni „Ótuktarskapur gegn aðkomumömmum“. Landsmiðlar hafa vísað til og fjallað um málið. Hefur m.a. verið rifjuð upp vinsæl setning í fréttablaðinu Degi sem gjarnan hafði eftir lögreglu að talið væri að um aðkomumann væri að ræða ef eitthvað misjafnt átti sér stað í bænum.

Miklar umræður hafa m.a. orðið á facebook-þræði Þóroddar, sem hefur búið víða og er með doktorsgráðu í félagsvísindum frá bandarískum háskóla. Tilfinningar eru í spilinu ef marka má tjáninguna. Margir aðfluttir virðast samsama sig málflutningi prófessorsins og lýsa sárindum vegna meintrar aðgreiningar.  En sárindin eru einnig meðal innfæddra. Sjálfur segir Þóroddur að hvergi hafi sér þótt betra að búa en á Akureyri en eftir tíu ára búsetu hafi hann ákveðið að gagnrýna „hvimleitt þvaður ákveðinna einstaklinga um það hver væri Akureyringur og hver ekki“. Tvennt þykir Þóroddi merkilegast við viðbrögðin við þessum pælingum. „Annars vegar að velflestir aðfluttir Akureyringar kannast vel við svona leiðindi, af eigin skinni eða annarra. Hins vegar að allmargir innfæddir Akureyringar kannast ekkert við vandamálið og eru frekar sárir yfir umræðunni. Það er félagsfræðilega áhugavert og bendir eindregið til þess að ræða þurfi þessi mál almennilega hér innanbæjar.“

Í umræðum á facebook-síðu Þóroddar  birtist m.a. sú skoðun að fólk skilgreini sig eftir uppruna sínum og eigi það einkum við um þá sem fæðast á dreifbýlli stöðum Íslands. Vaknar sú spurning hvort  Akureyri sé þorp sem endurspegli þankagang sveita og lítilla þorpa eða hvort bærinn rúmi borgarmenningu þar sem ókunnugleiki manna á milli sé norm.

Sjálfur hefur Þóroddur bent á að daginn eftir að íbúi frá landsbyggðunum flytji til Reykjavíkur geti hann kalað sig Reykvíking og hvorki amist nokkur við því, né sýni fólk slíkum pælingum sérstakan áhuga, svo sjálfsagt sé það t.d. samkvæmt lagalegri skilgreiningu að sá sem flytji lögheimili sitt til Akureyrar sé orðinn Akureyringur.

Ein spurning sem hefur kviknað vegna umræðunnar er: Er Akureyri minni bær í hugsun en sem nemur íbúafjölda hans?

Önnur spurning er hvort andrúmið í bænum myndi breytast hraðar með auknum fjölda aðfluttra frá höfuðborgarsvæðinu. Hvort t.d. flutningur Fiskistofu gæti haft áhrif til að útrýma gamaldags hugsun.

Aðgreining eftir uppruna gæti skaðað bæinn og vaxtarmöguleika hans, því eins og prófessorinn segir: „„Almennt ílengist fólk ekki í byggðarlögum sem það fær aldrei að kalla heimkynni sín.“ –BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Lús í Brekkuskóla

Skrifað 19. september 2014 klukkan 14:27 | | Fréttir |

LusLús er komin upp í Brekkuskóla. Forráðamenn barna hafa verið beðnir að fylgjast vel með litlum kollum næstu daga, rýna í hársvörð, fara eftir leiðbeiningum og nota lúsameðal aðeins ef þörf er á. Allar fregnir af lúsinni skulu berast skólahjúkrunarfræðingi.

Fréttir hafa verið sagðar síðustu daga af lús á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í Hagaskóla Illa gengur að kveða niður þennan óboðna gest sem nánast minnir á sig árlega. Þá herma heimildir blaðsins að lús hafi komið upp innan fleiri grunnskóla á Akureyri en Brekkuskóli er stærsti skóli Akureyrarkaupstaðar og líkur á lús e.t.v. mestar þar sakir fjölda barna. –BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Sjúkrahótel á Akureyri

Skrifað 19. september 2014 klukkan 09:30 | | Fréttir |

FSASamkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður raunaukning á framlögum til rekstrar Sjúkrahússins á Akureyri sem nemur 27 milljónum króna. Þar af eru 12 milljónir til eflingar starfsemi Sjúkraflutningaskólans og er það ánægjuefni að sögn Bjarna Jónssonar, forstjóra. Þá eru 15 milljónir ætlaðar til styrkingar rekstrargrunni sjúkrahússins. „Sú upphæð hefði gjarnan mátt vera töluvert hærri svo unnt væri að halda áfram að byggja upp og þróa þá þjónustu sem fyrir er. Sú uppbygging mun ganga hægar fyrir vikið verði þetta niðurstaðan,“ segir Bjarni.

Á árinu 2015 verða um 190 milljónir króna til ráðstöfunar til tækjakaupa á sjúkrahúsinu og 221 milljón til viðhaldsverkefna. Með launa- og verðlagsbreytingum fær sjúkrahúsið 5.640 milljónir króna samkvæmt frumvarpinu sem er aukning um 151,7 milljónir frá fyrra ári.

Það hefur lengi verið barist fyrir því að sjúkrahótel verði starfrækt á Akureyri og er það eitt af markmiðum í framtíðarsýn sjúkrahússins. Það er því mjög ánægjulegt að sjá að í þessu fjárlagafrumvarpi eru Sjúkratryggingum Íslands ætlaðar 20 milljónir króna til rekstrar sjúkrahótels á Akureyri. Sjúkrahótelið er ætlað þeim sem þurfa að dvelja nálægt sjúkrahúsinu um tiltekinn tíma vegna sérhæfðrar þjónustu sem hér er veitt og fæðandi konum sem þurfa að dvelja nálægt fæðingarþjónustu. Vonandi verður starfræksla sjúkrahótels komin í gang sem fyrst á næsta ári,“ segir Bjarni Jónsson. –BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Kirkjan verst ofsóknum

Skrifað 19. september 2014 klukkan 07:00 | | Fréttir |

KirkjanKatrín Ásgrímsdóttir, formaður Kristniboðsfélags Akureyrar, segir að nú standi yfir einstakt tækifæri til að hlusta á mann sem hafi mikla þekkingu og innsýn í “stöðu hinnar ofsóttu kirkju”  eins og Katrín orðar það. Með því vísar hún til að á Akureyri er nú staddur Ole Lilleheim sem er framkvæmdarstjóri Åpne Dører Norge. Open Door séu alþjóðleg samtök sem hafi það markmið að vekja athygli á þeim ofsóknum sem kristið fólk um víða veröld verður fyrir.

Samkvæmt tölum samtakanna þá er ástandið verst í Norður-Kóreu, en þar hafa um 300.000 kristinna misst lífið í gengum árin og um 70.000 í viðbót dvelja í fangabúðum.  Að undanförnu hafa borist fréttir af ofsóknum kristinna í Nígeríu, Írak og Sýrlandi.   En tugir þúsunda kristinna í norðurhluta Íraks hafa þurft að flýja heimili sín undan ofsókn IS samtakanna, Íslamska ríkisins.  Kirkjur hafa verið brenndar og markir hafa verið teknir af lífi.  Þrátt fyrir að þessar ofsóknir færist stöðugt í aukana hafa Vesturlönd ekki sýnt þessu mikinn áhuga.”

Á norgun, föstudaginn 19. september kl. 20 verður Ole Lilleheim í sal KFUM & K í Sunnuhlíð á Akureyri þar sem hann mun fjalla um kjör kristinna um víða veröld, en sérstaklega ofsóknir gegn kristnu fólki. -BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Hundalógík um matarskatt

Skrifað 18. september 2014 klukkan 20:27 | | Fréttir |

MaturFram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður úr 7% í 12%. Ríkisstjórnin ber við að um einföldun á kerfinu sé að ræða sem ekki bitni á tekjulægri en Neytendasamtökin benda á að tekjulægstu heimilin verji 17,6% ráðstöfunartekna sinna í matar- og drykkjarvörur, á móti 10,7% hjá tekjuhæstu heimilunum.

Neytendasamtökin mótmæla þessum áformum harðlega enda sé ljóst að breytingin komi verst niður á tekjulágum heimilum.

Stjórnvöld halda því fram að þetta sé til einföldunar á skattakerfinu. Ekki er hægt að fallast á þau rök enda verða áfram tvö virðisaukaskattsþrep, þó svo að annað hækki um 5 prósentustig en hitt lækki um 1,5 prósentustig.

Minnt er á að það voru einmitt sömu flokkar í ríkisstjórn þegar ákveðið var að lækka virðisaukaskatt á matvörur úr 14% í 7%. Neytendasamtökin studdu eindregið þá aðgerð og hljóta því að spyrja hvað hafi breyst síðan þá.

Það ber að taka fram að Neytendasamtökin styðja hugmyndir um að leggja vörugjald niður enda er það til þess fallið að einfalda skattakerfið, en vörugjaldskerfið er mjög flókið. Auk þess er það oftar en ekki lagt á vörur sem eru nauðsynlegar heimilunum. Einnig er minnt á að þessar sömu vörur eru í hærra virðisaukaskattsþrepinu og því eru opinberar álögur á þessar vörur mjög miklar. Niðurfelling vörugjalda og lækkun hærra virðisaukaskattsþrepsins vegur þó að mati Neytendasamtakanna ekki upp á móti mikilli hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

Neytendasamtökin gera ráð fyrir að hækkun á matarskatti komi fram í verðlagi um leið og hún tekur gildi og hafi þar með umtalsverð áhrif á verðtryggingu húsnæðislána. En samtökin hafa áhyggjur af því að lækkanir í efra þrepi virðisaukaskatts og niðurfelling vörugjalda muni ekki skila sér til neytenda í sama mæli, enda hafa dæmin sýnt að slíkar lækkanir skila sér í mörgum tilvikum illa  til neytenda, nema því aðeins að  stjórnvöld komi á fót sérstöku eftirliti til að fylgjast með að lækkanir skili sér í verðlagi. Gera Neytendasamtökin því þá kröfu, verði þessar tillögur að veruleika, að því verði sérstaklega fylgt eftir, að umræddar lækkanir skili sér til neytenda,“ segir Jóhannes Gunnarsson hjá Neytendasamtökunum. -BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Aldraðir fái aukin áhrif

Skrifað 18. september 2014 klukkan 17:20 | | Fréttir |

Akureyri oddeyriÁkveðið hefur verið að stofna öldungaráð á Akureyri. Þetta er að frumkvæði Félags eldri borgara á Akureyri og hefur bæjarráð tekið jákvætt í erindið og vísað því til samfélags- og mannréttindaráðs sem staðfestir stofnun öldungaráðs.

Samfélags- og mannréttindaráð hefur óskað eftir að formaður Félags eldri borgara komi til fundar við ráðið á næstunni. Vilberg Helgason sem situr í samfélags- og mannréttindaráði segir málið á byrjunarstigi. „Við óskuðum eftir fundi með formanni Félags eldri borgara til að afla okkur upplýsinga um væntingar þeirra og markmið með öldungaráði.“

Gera má ráð fyrir að ráðið verði bæjarstjórn ráðgefandi um mál er varða hag eldri borgara í bæjarfélaginu og að mið verði tekið af starfsemi öldungaráða hjá ýmsum sveitarfélögum á Norðurlöndunum við mótun starfsreglna þess. Í grein sem formaður  Landssambands eldri borgara ritaði fyrir kosningar í vor var bent á að eldri borgarar, vaxandi hópur í þjóðfélaginu með auknu langlífi, vilji gjarnan vera með í að móta tillögur um málefni og fylgjast með hvernig þeim málum er fyrirkomið í nærsamfélaginu.

Hvernig er heimaþjónustan? Eru heimsendingar á mat? Er einhver starfsmaður á vegum sveitarfélagsins að sinna þörfum eða starfsemi fyrir eldri borgara? Hvað um húsnæði fyrir starf Félags eldri borgara? Er það fyrir hendi eða nægilegt? Verður kosið öldungaráð hjá ykkur?“ Þetta voru spurningar sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir setti fram í grein á akureyrivikublad.is.

Öldungaráð starfa samkvæmt lögum á öllum löndum á Norðurlöndunum nema Íslandi og Færeyjum. Öldungaráð er þó starfandi í Hafnarfirði og tillaga var samþykkt hjá borgarstjórn Reykjavíkur sl. vetur um öldungaráð.

Helstu reglur um starfsemi öldungaráða t.d. í Danmörku eru þannig að í hverju sveitarfélagi skal stofna a.m.k. eitt öldungaráð sem fimm öldungar skipa og fimm til vara. Kjósa skal einstaklinga til setu í öldungaráði með beinni kosningu. Einstaklingar, 60 ára og eldri sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, hafa kosningarétt og kjörgengi til öldungaráðs. Kosningar geta fylgt sveitarstjórnarkosningum eða a.m.k. farið fram á fjögurra ára fresti eins og kosning í aðrar nefndir. Sveitarstjórnin gefur út samþykkt um starfsemi öldungaráðs en það setur sér starfsreglur. Öldungaráð ráðleggur sveitarstjórn um málefni aldraðra og stuðlar að skoðanaskiptum eldri borgara og kjörinna fulltrúa um stefnu og framkvæmd þeirra mála, segir Jóna Valgerður.

Félag eldri borgara á Akureyri vill koma að vinnu við gerð starfsreglna Öldungaráðsins samkvæmt heimildum blaðsins. -BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Útilokar enn ekki málshöfðun

Skrifað 18. september 2014 klukkan 13:00 | | Fréttir |

BorgirÝmislegt í úrskurðinum kemur mér á óvart – einkanlega það að umboðsmaður telur sig „ekki hafa forsendur" til að taka afstöðu til mikilvægra atriða, og telur þau fremur eiga heima hjá dómstólum. Það er nokkuð sem ég skoða bara í rólegheitum í samráði við minn lögmann,“ segir Ólína Þorvarðardóttir.

Hún sótti um stöðu forseta við hug- og félagsvísindasvið Háskólans og kærði niðurstöðu til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður hefur nú ályktað að engin ástæða sé til að gera athugasemdir við ráðningarferlið. Sigrún Stefánsdóttir hlaut forsetastöðuna en Ólína gagnrýndi harðlega málsmeðferðina á sínum tíma.

Ólína Þorvarðardóttir

Ólína Þorvarðardóttir

Ólína var ein af sex umsækjendum um stöðu forseta við hug- og félagsvísindasvið HA. Í leynilegri kosningu meðal starfsmanna sviðsins fékk Ólína 16 atkvæði eins og Rögnvaldur Ingþórsson heimspekingur. Sigrún Stefánsdóttir fékk þá 13 atkvæði. Kosið var á milli Ólínu og Rögnvaldar og fékk Ólína þá 20 atkvæði en Rögnvaldur 19 atkvæði. Þáverandi rektor, Stefán B. Sigurðsson, skipaði Sigrúnu í stöðuna.

Blaðið spurði Ólínu hvort hún útilokaði þá ekki enn að fara dómstólaleiðina í höfðun máls gegn skólanum. Hún vildi ekki tjá sig um það en samkvæmt framansögðu er það ekki útilokað. -BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014


Óstarfhæf stjórn og sjúkraflutningar í uppnámi í Hrísey

Skrifað 18. september 2014 klukkan 09:57 | | Fréttir |
Talsmaður Hverfisráðs Hríseyjar segir íbúa hafa þurft að þola mikinn samdrátt og niðurskurð undanfarið.  Ríkið þurfi að reiða fram fé til að tryggja sjúkraflutninga.  Þeir sem sigla Hríseyjarferjunni milli lands og eyjar þurfa að sigla frítt ef upp kemur beiðni um sjúkraflutninga.

Talsmaður Hverfisráðs Hríseyjar segir íbúa hafa þurft að þola mikinn samdrátt og niðurskurð undanfarið. Ríkið þurfi að reiða fram fé til að tryggja sjúkraflutninga. Þeir sem sigla Hríseyjarferjunni milli lands og eyjar þurfa að sigla frítt ef upp kemur beiðni um sjúkraflutninga.

Hverfisráð Hríseyjar segir að upp sé komin alvarleg staða varðandi sjúkraflutninga í Hrísey. Hverfisráðið fundaði sl. föstudag um þessi mál og segir í ályktun ráðsins: „Upp hafa komið tilfelli þar sem boðun um sjúkraflutning gekk mjög illa og hefur Hverfisráð verulegar áhyggjur af stöðu sjúkraflutninga í Hrísey og neyðarboðunum.“ Einnig segir í ályktun Hverfisráðs Hríseyjar: „Stjórn Björgunarsveitar Hríseyjar er óstarfhæf og óskýrt hver verkaskipting milli slökkviliðs og björgunarsveitar er. Þessu verður að kippa í liðinn og er algjört forgangsatriði að koma þessum máli á réttan kjöl.“

Ingimar Ragnarsson verkstjóri sagði í samtali við Akureyri Vikublað að ekki væri um persónulegt mál að ræða. Staðan væri hins vegar sú að þeir sem sigldu Hríseyjarferjunni fengju ekkert borgað fyrir neyðarflutninga sjúkra. Samt teldu menn sig bundnir af bakvaktaskyldu í þjónustuskyni. „Við erum að reyna að þrýsta á að eitthvað verði gert til að bæta þetta ástand og horfum þá ekki síst til fjárveitingar frá ríkinu.“

Ingimar segir að þetta sé ekki ný umræða. „Við höfum barist fyrir þessu máli í tvö ár núna en okkur finnst sem hlutir gangi heldur hægt. Það þarf líka að vera á hreinu hver hefur hvaða ábyrgð. Björgunarsveitin hefur séð um þetta en núna fækkar og fækkar íbúum hjá okkur sem gerir allt erfiðara. Við höfum orðið fyrir miklum samdrætti og niðurskurði og það þarf að bregðast við.“

Fundargerðina sendi hverfisráð Hríseyjar á  bæjarstjóra Akureyrarbæjar, slökkviliðstjóra Akureyrarbæjar, framkvæmdastjóra heilsugæslunar á Dalvík Velferðarráðuneytið, Björgunarsveitarinnar í Hrísey, Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar og til slökkviðliðsstjórans í Hrísey. Bæjarráð Akureyri ræddi málið á síðasta fundi. –BÞ

Akureyri vikublað 18. september 2014

 


Við höfum heyrt þennan áður

Skrifað 17. september 2014 klukkan 22:17 | | Fréttir |
Björn Þorláksson

Björn Þorláksson

Fjármálafrumvarpið lýsir vel stefnu hægri stjórnar í þessu landi. Nýfrjálshyggjan gefur sér að við séum öll vörur á markaði sem ekki þurfi sterkt ríkisvald sem kjölfestu. Allir borgarar hafi tækifæri til að verða glaðir og ríkir. Það er rangt. Sumt í fjárlagafrumvarpinu mun ýta undir stéttaskiptingu og ójöfnuð. Frumvarpið ræðst ekki að rótum vanda heilbrigðis- og menntamála, heldur gerir það ráð fyrir sölu almannagæða, sölu ríkiseigna. Á henni munu vildarvinir hagnast en almenningur tapa.

Borið er við að með sölu ríkiseigna sé hægt að greiða erlendar skuldir upp og losna við vaxtakostnað. Við höfum heyrt þennan áður! Nákvæmlega sömu rök voru notuð sem réttlæting fyrir einkavæðingu ríkisbankanna hér ekki alls fyrir löngu. Selja átti ríkiseignir til að losa fé, greiða skuldir. Svo hrópuðu þeir húrra, skömmu fyrir hrun. Við erum skuldlaus, sögðu þeir þá. Nánast daginn eftir hrundi allt Ísland, það hrundi vegna skammsýni, græðgi, nýfrjálshyggju og spilltrar einkavæðingar. Eftir sitjum við skuldugri en nokkru sinni fyrr.

Trúverðugleiki þeirra sem tala fyrir sömu stefnu og var við lýði á Davíðs- og Haarde-tímanum er einfaldlega enginn. Stjórnin virðist firrt kjarna þess máls, sem sagt þeim að hér varð ekki bara efnahagslegt hrun sem kostað hefur margan Íslendinginn bæði aleigu og heilsu heldur varð hér hugmyndafræðileg vending eftir skellinn. Sú vending tengist hinu siðlega og mannlega. Sagan segir að  einkaframtakinu sé ekki treystandi fyrir almennri velferð borgaranna. Þjóðin vill blandað hagkerfi, hvata fyrir einkaframtak en það hefur ekki gefist vel að einkavæða skyldur ríkisins.

Lífsnauðsynjar og menningarverðmæti s.s. bækur hækka í verði samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Er þó fátt annað en íslensk tunga sem bindur okkur nú orðið saman. Menningin, jöfnuður, vinnuvilji og mannkostir eru helstu auðlegðir þessa lands. Jöfnuður manna á millum þýðir jafnt lýðræði. Trú á eigið samfélag og lýðræði samtímans hvetur fólk áfram. Annars er hætta á brottflutningi. Ef gott fólk flytur burt úr þessu landi kallast það brain drain sem þýtt hefur verið sem spekileki. Hinir verðmætustu fara fyrst ef þeim líkar ekki heimilisfestin. Þeir sem hafa bjargir til að fara munu fara, þeir sem kunna gagnrýna hugsun og virða frelsi hugans gætu kosið að hafna oki sérhagsmuna hins gamla Íslands og í útnáralegri einangrunarhyggju.

Við sækjum flest okkur fyrirmyndir til demókratisma á Norðurlöndum þar sem velferðarkerfið er sett í öndvegi. Hér á landi sér á því kerfi og við erum enn með roða í kinnum eftir þá vandræðalegu tilraun sem leiddi til hrunsins, þegar stökkbreyta átti bændum og sjómönnum í flottustu peningamenn í heimi.

Við vitum að án samstarfs og samráðs við alþjóðasamfélagið losnum við hvorki við efnahagslegar snjóhengjur né getum við vænst þess að íslenskir peningar fái súrefni til að gera gagn fyrir almenning.

Ef ríkisstjórnin sér ekki að sér býður fjármálafrumvarpið upp á enn frekari ófrið og sundrungu. Þegar síst skyldi.

Björn Þorláksson

Leiðari Akureyri vikublaðs 18. september 2014